Skoðun
Bergrún Íris Sævarsdóttir
rithöfundur og myndskreytir

Með bók í hönd

Bergrún Íris Sævarsdóttir skrifar

Læsi hrakar, íslenskukunnáttu barna og fullorðinna fer aftur, tungumálið er í stórhættu og ef ekkert er að gert töpum við móðurmálinu á næstu 50 árum. Dapurlegar fréttir og hamfaraspár blasa við okkur en hvað er hægt að gera til að sporna við þróuninni? Er þetta vandamál ríkisins og menntamálaráðuneytisins? Er það menntamálastofnunar, skólanna og kennaranna að bjarga íslenskunni? Eða geta foreldrar, frænkur og frændur, ömmur og afar, mögulega unnið stærstu sigrana með litlum og einföldum breytingum innan veggja heimilisins?

Ef það er barn á heimilinu eða þú átt barn í þínu lífi sem þér þykir vænt um skaltu spyrja þig þessarar spurningar: Hvenær sá barnið þig síðast með bók í hönd? Hvenær sökktir þú þér síðast niður í bók þar sem barn sá til þín? Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og þegar barn sér fullorðinn einstakling lesa af áhuga, vaknar hjá þeim forvitni og löngun til að gera slíkt hið sama.

Trúirðu mér ekki? Spurðu þig þá að þessu:
Hvenær sá barnið / barnabarnið þitt þig síðast með síma í hönd?

Dveljum aðeins við þetta. „Hann er með i-padinn á heilanum,“ segi ég um sjö ára son minn og ég skil bara ekkert í því að hann lesi ekki frekar eina af þeim hundrað bókum sem fylla hillurnar í herberginu hans. En svo lít ég niður og sé símann, samgróinn við höndina á mér og fingurnir tilbúnir að svara skilaboðum á sömu sekúndu og þau berast. Guð forði vinkonu minni frá því að bíða í nokkrar mínútur eftir að ég sendi „LOL“ við GIF-inu af fyndna kettinum sem hún sendi mér.
Rétt í þessu varð ég að taka upp símann til að kíkja á nokkur snöpp og svara. Ég hætti sem sagt að skrifa þessa litlu grein til að sjá einhvern taka til á Snapchat! Ég þarf að breyta þessu, ef ekki fyrir mig þá fyrir börnin mín tvö. Ég vil frekar vera mamman sem er með nefið ofan í bók heldur en sú sem lítur ekki upp úr símanum, sérstaklega á þessum heilaga tíma eftir að börnin koma heim úr skóla og leikskóla. Næst þegar ég teygi mig eftir símanum ætla ég að taka upp bók í staðinn og ég hvet þig til að gera slíkt hið sama. Síminn getur beðið.
 
Höfundur er rithöfundur og myndskreytir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.