Handbolti

Rúnar: Börnin gefa mér ekkert alltaf tíma til að hugsa um hvað þetta er pirrandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handbolta, gengur í raðir Ribe í Danmörku næsta sumar eftir níu ára dvöl í Þýskalandi.

Hann hefur síðustu þrjú ár leikið með Hannover-Burgdorf í þýsku 1. deildinni þar sem tækifærin hafa verið af skornum skammti undanfarin misseri.

„Strákurinn sem er með mér er mjög öflugur en hann hefur tekið þéttar dýfur inn á velli. Hann er þýskur landsliðsmaður og er sá eini slíki í hópnum okkar. Öll markaðssetning liðsins og allt út á við snýst um hann,“ segir Rúnar en leikmaðurinn sem umræðir heitir Kaj Häfner.

„Það er ótrúlega mikilvægt að hann spili. Hann er einn af betri leikmönnum liðsins en það er ekki einu sinni gott fyrir hann að spila svona mikið. Hann hefur yfirleitt spilað best þegar ég hef tekið 20-25 mínútur á móti honum.“

Rúnar viðurkennir að honum líður ekkert alltof vel með þetta enda vilja menn alltaf spila.

„Þetta fer alveg í taugarnar á manni. Maður kemur heim eftir leiki búinn að sitja tvisvar sinnum sjö tíma í rútu og gera ekki rassgat þar á milli. Það er alltaf pirrandi. Ég er samt ekkert að leggjast í fýlu heldur bara tek ég á því í ræktinni og reyni að halda mér í standi,“ segir Rúnar.

„Fyrir tveimur til þremur árum hefði þetta verið erfiðara en nú á ég tvö börn og þau gefa mér ekkert alltaf tíma til að hugsa um þetta,“ segir Rúnar Kárason.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöð 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×