Erlent

Obama setur stefnuna á kviðdóm

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/GEtty
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið kallaður til að sinna kviðdómsskyldu í Chicago og ætlar hann að mæta. Ekki er víst að hann muni verða valinn í kviðdóm vegna réttarhalda en hann mun taka þátt í valinu. 

Bæði George W. Bush og Bill Clinton hafa einnig tekið þátt í kviðdómavali eftir að þeir fluttu úr Hvíta húsinu.

Æðsti dómari Cook County, þar sem réttarhöldin fara fram, sagði Chicago Tribune að allt yrði gert til að tryggja öryggi Obama og gert yrði ráð fyrir lífvörðum hans. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær kviðdómsvalið mun fara fram, en það verður þó í nóvember.

„Hann gerði mér það fullkomlega ljóst, í gegnum fulltrúa sinn, að hann myndi sinna skyldu sinni sem borgari og íbúi þessa samfélags,“ sagði dómarinn Tim Evans.

„Þó þetta sé ekki vettvangur þar sem almenningur getur hagnast, er það vel metið,“ sagði Evans einnig.

Samkvæmt frétt Washington Post sleppti Obama einu sinni að sinna kviðdómsskyldu en það var árið 2010. Þá var hann forseti Bandaríkjanna og á sama tíma og hann átti að mæta í dómshús í Chicago átti hann einnig að flytja ræðu fyrir báðum deildum þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×