Innlent

Ísland mun betur búið til að mæta áföllum nú en eftir hrun

Heimir Már Pétursson skrifar
Bankakerfið er mun betur statt nú en fyrir hrun til að bregðast við mögulegum áföllum í þjóðarbúskapnum, til dæmis ef ferðamönnum fækkaði umtalsvert, að mati Seðlabanka Íslands. Staða heimilanna hafi einnig stórbatnað á undanförnum árum og horfur séu á áframhaldandi hagvexti á næstu árum.

Útlán til heimila og fyrirtækja, sérstaklega fyrirtækja í ferðaþjónustu, eru að aukast. En Seðlabankinn telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því. Þetta sé í takti við aukinn hagvöxt.

Talsmenn Seðlabankans kynntu rit sitt fjármálastöðugleika í dag en þar kemur fram að bæði fyrirtæki og heimili hafi notað hagvöxt og aukinn kaupmátt á undanförnum árum til að greiða niður skuldir. Þótt verð íbúðarhúsnæðis hafi náð hæstu hæðum eins og það var fyrir hrun, standi bankakerfið, heimilin og fyrirtækin mun betur nú og skuldastaðan gagnvart útlöndum sé góð. Bönkunum bjóðist líka mun betri vaxtakjör en á árunum eftir hrun og eigi því auðvelt með að endurfjármagna 105 milljarða lán á næsta ári.

Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum segir það ekki síst vera hraðan og mikinn vöxt ferðaþjónustunnar sem bætt hafi stöðu þjóðarbúsins á undanförnum árum. En nú eru um 20 prósent útlána bankanna til fyrirtækja til ferðaþjónustunnar, svipað hlutfall og til sjávarútvegsins.

„Staðan er nokkuð góð. Við höfum búið við góðar aðstæður undanfarið og fjármálakerfið stendur jafnframt sterkt. En við erum að byrja að sjá taktinn í uppsveiflunni í fjármálasveiflunni byrja að aukast. Útlánin eru að aukast svo við þurfum núna að ganga hægt um gleðinnar dyr,“ segir Harpa.

Útlán til heimilanna hafa aðallega aukist vegna húsnæðiskaupa með auknum kaupmætti þeirra og þá er munurinn á byggingarkostnaði og húnsæðisverði orðinn slíkur að nú borgi sig að byggja á nýjan leik. En staða heimilanna sé góð um þessar mundir.

Seðlabankinn býst ekki við alvarlegum áföllum í efnahagslífinu á næstu árum en segir áhættuna helst liggja í stöðu ferðaþjónustunnar og húsnæðisverði. Ef ferðamönnum fækkaði af einhverjum sökum gæti til að mynda hluti um 4.500 íbúða í útleigu til ferðamanna komið inn á almenna markaðinn og valdið verðlækkun.

„Við erum nýbúin að fá gögn í hús frá AirBnB og munum greina þau nánar. En eins og þetta birtist okkur núna virðist þetta vera að hafa umtalsverð áhrif á markaðinn,“ segir Harpa.

En jafnvel þótt ferðamönnum fækkaði umtalsvert sem smitaðist út í aðra hluta efnahagslífsins þoli bankakerfið umtalsvert áfall, en þurfi að fara sér hægt í arðgreiðslum og líta fram á veginn.

Myndum við vera í svipaðri stöðu og í hruninu haustið 2008 eða myndi kerfið þola áfallið betur?

„Já, kerfið þolir áfallið mun betur. Það er mun meira eigið fé og lausafé inni í kerfinu í dag,“ segir Harpa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×