Erlent

Dularfulla hljóðvopnið: Fimmtán kúbverskum erindrekum vísað frá Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu.
Sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu. Vísir/Getty
Bandarísk yfirvöld hafa skipað fimmtán sendiráðsstarfsmönnum Kúbu í Bandaríkjunum að yfirgefa landið vegna dularfullra hljóðárása á sendiráð Bandaríkjanna í Kúbu. Washington Post greinir frá.

Fyrir helgi tilkynnti bandaríska utanríkisráðuneytið um að það myndi fækka verulega starfsmönnum í sendiráði sínu í Kúbu vegna þessa dularfullu hljóðárása.

Ekki er vitað hver eða hvað stendur á bak við þessar árásir en minnst 21 erindreki og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir skaða vegna þeirra. Þar á meðal hafa einhverjir orðið fyrir varanlegu heyrnartapi eða jafnvel heilaskaða.

Kúbversku erindrekarnir hafa sjö daga til þess að yfirgefa Bandaríkin. Samskipti ríkjanna hafa farið versnandi eftir að upp komst um hljóðárásirnar. Bandarískir ferðamenn hafa verið hvattir til að halda sig frá Kúbu auk þess sem að Kúbverjar fá ekki lengur vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna.

Ráðamenn í Kúbu sem og í Bandaríkjunum hafa á undanförnum vikum haldið viðræður til þess að reyna að komast í botns í málinu, án árangurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×