Erlent

Ulf Kristersson býðst til að leiða sænska Hægriflokkinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ulf Kristersson var ráðherra félagslegra tryggingamála á árunum 2010 til 2014.
Ulf Kristersson var ráðherra félagslegra tryggingamála á árunum 2010 til 2014. Moderaterna
Ulf Kristersson, talsmaður sænska Hægriflokksins (Moderaterna) í efnahagsmálum, hefur tilkynnt að hann bjóðist til að taka við formennsku í flokknum.

Hinn 53 ára Kristersson greindi frá ákvörðun sinni á Facebook, en hann hefur almennt verið talinn líklegastur til að taka við formennsku af Anna Kinberg Batra. Kinberg Batra tilkynnti fyrir um viku að hún ætli sér að stíga til hliðar.

Svæðissambönd flokksins hafa mörg þrýst á Kristersson að bjóða fram krafta sína. Nefnd á vegum flokksins mun leggja fram tillögu um nýjan formann og verður kosið um hana á auka landsfundi í byrjun næsta mánaðar.

Kristersson var formaður ungliðahreyfingar flokksins á árunum 1989 til 1992. Hann var ráðherra félagslegra tryggingamála á árunum 2010 til 2014.

Kinberg Batra tók við formennsku í flokknum árið 2015 þegar hún tók við af Fredrik Reinfeldt sem gegndi embætti forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 2006 til 2014. Verulega hefur dregið úr fylgi flokksins í skoðanakönnunum á síðustu mánuðum og var hart sótt að Kinberg Batra að stíga til hliðar.

Mikael Odenberg, fyrrverandi varnarmálaráðherra Svíþjóðar, hefur einnig tilkynnt að hann bjóðist til að leiða flokkinn.


Tengdar fréttir

Odenberg býður sig fram til formanns

Fyrrverandi varnarmálaráðherra Svíþjóðar hefur boðið sig fram til formanns innan sænska Hægriflokksins (Moderaterna).

Formaður sænskra hægrimanna segir af sér

Anna Kinberg Barta, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Svíþjóð, hyggst segja af sér formennsku í flokknum. Hún greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×