Erlent

Formaður sænskra hægrimanna segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Kinberg Batra hefur leitt Moderaterna frá árinu 2015.
Anna Kinberg Batra hefur leitt Moderaterna frá árinu 2015. Vísir/EPA
Anna Kinberg Batra, formaður sænska Hægriflokksins (Moderaterna), hyggst segja af sér formennsku. Hún greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun.

Greindi hún frá því að hún telji forsendurnar ekki til staðar til að hún geti leitt flokkinn til sigurs í þingkosningum á næsta ári. Ungliðahreyfing flokksins, sveitarstjórnarmenn og alls ellefu svæðissambönd höfðu í morgun samþykkt ályktanir þar sem þrýst var á Kinberg Batra að stíga til hliðar. Sakaði hún þann hóp um að valda flokknum skaða.

Formaðurinn sagðist munu leggja til við flokksstjórn að boðað verði til auka landsfundar þar sem nýr formaður verði valinn.

Verulega hefur dregið úr fylgi Hægriflokksins í skoðanakönnunum á síðustu mánuði. Þá hefur formaðurinn verið gagnrýndur fyrir að vera með lítinn kjörþokka, ekki nægilega góður ræðumaður og að hafa ekki útilokað að mynda ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum.

Kinberg Batra hefur leitt flokkinn frá 2015 þegar hún tók við af Fredrik Reinfeldt sem gegndi embætti forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 2006 til 2014.

Hægriflokkurinn hefur í könnunum mælst með um fimmtán present fylgi að undanförnu, en í kosningunum fyrir þremur árum hlaut flokkurinn 23 prósent atkvæða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×