Erlent

27 látnir eftir skjálftann í Mexíkó

Atli Ísleifsson skrifar
Skjálftinn er sagður sá öflugasti í landinu í heila öld.
Skjálftinn er sagður sá öflugasti í landinu í heila öld. Vísir/epa
Fjölmiðlar í Mexíkó segja að staðfest sé að 27 manns hið minnsta hafi látið lífið í skjálftanum sem varð undan vesturströnd landsins í nótt. Skjálftinn er sagður sá öflugasti í landinu í heila öld.

Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, segir skjálftann hafa verið 8,2 að stærð með upptök í Kyrrahafi, um 87 kílómetrum suðvestur af Pijijiapan.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út í Mexíkó sem og í fjölda ríkja í Mið-Ameríku. Var talið að öldur, allt að þriggja metra háar, gætu skollið á land.

Tilkynnt hefur verið um talsverða eyðileggingu í fylkjunum Oaxaca og Chiapas.

Skjálftinn varð klukkan 23:49 að staðartíma og varð á um 33 kílómetra dýpi. Vel fannst til skjálftans í höfuðborginni Mexíkóborg, um þúsund kílómetrum frá upptökunum. Segir Peña Nieto forseti að um fimmtíu milljónir manna í Mexíkó hafi fundið fyrir skjálftanum.

Alejandro Murat, fylkisstjóri Oaxaca, segir að tuttugu séu látnir í fylkinu, sautján þeirra í bænum Juchitán. Þá hefur verið greint frá því að fjórir séu látnir í Chiapas og tvö börn í Tabasco-fylki. Þá hefur forseti Gvatemala staðfest að einn hafi látið lífið í skjálftanum þar í landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×