Skoðun

Húsbílar frá helvíti?

Steinarr Lár skrifar
Af umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum um húsbíla undanfarin ár mætti ætla að ferðamenn þessir séu að valda miklum usla í íslensku samfélagi. Í því samhengi er vert að skoða nokkrar staðreyndir um þessa tegund ferðamennsku. Af þeim 26.000 bílaleigubifreiðum sem skráðar eru hér á landi eru um 1.200 húsbílar eða um 4,6%.

Húsbílaleigur þjónusta u.þ.b. 80.000 manns á ársgrundvelli eða u.þ.b. 4% af þeim tveimur milljónum ferðamanna sem áætlað er að hingað sæki á þessu ári. Meðalleigutími á venjulega bílaleigubifreiða er að meðaltali 3,7 dagar á meðan dagafjöldi í leigu húsbíla er meira en helmingi lengri eða um 7,7 dagar að meðaltali. Húsbílaleigur hafa frá upphafi greitt 24% virðisaukaskatt meðan önnur gistiúrræði hér á landi greiða nú 11% í virðisaukaskatt, en greiddu lengi vel engan virðisauka.

Þeir ferðamenn sem ferðast og dvelja í húsbílum dreifast um landið allt og skapa því minni hættu á að viðkvæm svæði verði undir átroðningi og skemmdum. Með góðri dreifingu ferðamanna dreifast einnig mikilvægar tekjur til fáfarinna viðkomustaða sem bjóða ekki upp á aðra gistimöguleika. Leiga á húsbílum er dýr eða um þrisvar sinnum dýrari en leiga á hefðbundnum bílaleigubifreiðum. Ennfremur eru umsagnir erlendra ferðamanna á netinu vegna reynslu þeirra af húsbílaleigum landsins til fyrirmyndar eða að meðaltali upp á 4,8 stig af 5 mögulegum. Að ofangreindu gefnu má færa fyrir því haldbær rök að ferðamenn sem ferðast á húsbílum séu verðmætir ferðamenn. Þeir dvelji hér lengur og skilji meira eftir sig í tekjum við kaup á mat og þjónustu. Þeir greiða hærri skatta, dreifast betur og eru umfram allt mjög ánægðari með dvöl sína á Íslandi.

Heildartekjur húsbílaleigna á ársgrundvelli á Íslandi eru áætlaðar um 5 milljarðar króna í hreinum gjaldeyri á líðandi ári. Til gamans má geta þess að heildarframlög ríkisins til Vegagerðarinnar á þessu ári eru 5,9 milljarðar króna. Gætu því þessi 4% ferðamanna sem sækja Ísland heim og nýta sér þennan ferðamáta t.a.m. rekið vegakerfið okkar nánast í heild sinni. Því er óhætt að segja að þessi starfsemi og þær tekjur sem henni fylgja séu samfélaginu okkar mikilvægar.

 

Höfundur starfar við ferðaþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Mega einhverf hverfa?

Ármann Pálsson,Björg Torfadóttir,Sigrún Ósk,Sigurjón Már,Halldóra Hafsteins,Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,Mamiko Dís Ragnarsdóttir skrifar

Sjá meira


×