Viðskipti innlent

Ísgöngin í Langjökli metin á milljarð króna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ísgöngin í Langjökli eru stærstu manngerðu ísgöng heims sem opin eru almenningi. Framtakssjóðurinn ITF fjármagnaði verkefnið að mestu og er langstærsti hluthafinn.
Ísgöngin í Langjökli eru stærstu manngerðu ísgöng heims sem opin eru almenningi. Framtakssjóðurinn ITF fjármagnaði verkefnið að mestu og er langstærsti hluthafinn. vísir/stefán
Ísgöngin í Langjökli, sem notið hafa mikilla vinsælda á meðal ferðamanna undanfarin tvö ár, eru metin á rúmlega einn milljarð króna í ársreikningi framtakssjóðsins Landsbréf Icelandic Tourism Fund (ITF) fyrir síðasta ár. Bókfært virði félagsins Into the Glacier, sem býður upp á daglegar ferðir inn í þessi stærstu manngerðu ísgöng í heimi, hækkaði um 150 prósent á milli ára í bókum ITF. Sjóðurinn, sem er í eigu Icelandair Group, Landsbankans og sjö lífeyrissjóða, átti í lok síðasta árs 88,35 prósenta hlut í félaginu.

Virði eignarhlutar sjóðsins í félaginu IWE, sem stendur að hvalasýningunni Whales of Iceland á Granda, hækkaði einnig verulega í fyrra, en í lok ársins átti sjóðurinn félagið að öllu leyti. Var félagið metið á um 516 milljónir króna í lok síðasta árs samanborið við 117 milljónir í lok árs 2015.

Þá kemur fram í ársreikningnum að bókfært virði eignarhlutar sjóðsins í hestagarðinum Fákaseli í Ölfusi hafi verið afskrifað. Eins og Markaðurinn hefur greint frá var hestagarðinum lokað í febrúar vegna mikils tapreksturs. Í lok árs 2015 var 49 prósenta hlutur sjóðsins í garðinum bókfærður á tæpar 183 milljónir króna, en í fyrra stækkaði hluturinn upp í rúm 90 prósent þegar lánum sjóðsins var breytt í hlutafé. Var bókfærða virðið síðan fært í núll í ársreikningnum, eins og áður sagði.

Alls nam hagnaður sjóðsins 391 milljón króna í fyrra, á þriðja heila rekstrarári hans, en til samanburðar varð 53 milljóna tap á rekstrinum árið 2015.

„Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur frá því að við fórum af stað fyrir fjórum árum,“ segir Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri sjóðsins, í samtali við Markaðinn. „Við höfum haft úr nægum verkefnum að moða. Það hafa komið fjölmörg tækifæri á okkar borð og við höfum, eins og eðlilegt er, valið þau verkefni sem okkur hefur litist best á og náð að byggja upp að okkar mati áhugavert og sterkt eignasafn.“

Sjóðurinn fjárfestir eingöngu í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og hefur alls tekið þátt í tíu verkefnum. Helgi segist finna fyrir miklum áhuga til fjárfestinga í greininni. Sjóðurinn er með nokkrar fjárfestingar til skoðunar og segir Helgi ekki ólíklegt að það muni fjölga eitthvað í eignasafninu á næstunni, þrátt fyrir að sjóðurinn sé kominn á seinni hluta fjárfestingartímabils síns.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×