Körfubolti

Tryggvi semur við Þórsara til þriggja ára en spilar líklega ekki með þeim næsta vetur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason er eftirsóttur.
Tryggvi Snær Hlinason er eftirsóttur. vísir/anton brink
Tryggvi Snær Hlinason, miðherjinn ungi í Þór Akureyri, skrifaði í dag undir þriggja ára samning við félagið en þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Þessi 216cm hái miðherji sem er eitt mesta efni sem sést hefur í íslenskum körfubolta átti fínt tímabil í Domino´s-deildinni þar sem hann þreytti frumraun sína í efstu deild.

Hann hjálpaði nýliðum Þórs að komast í úrslitakeppnina en það hafnaði í áttunda sæti og tapaði, 3-0, á móti Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.

Þrátt fyrir að skrifa undir nýjan samning við Þór eru afar litlar líkur á að Tryggvi spili með liðinu í Domino´s-deildinni á næstu leiktíð þar sem hann stefnir á atvinnumennsku. Samningurinn tryggir bara það, að risinn úr Bárðardalnum spilar með Þór ef hann frestar atvinnumennskunni eða gerir hlé á henni.

„Að sjálfsögðu munu Þórsarar ekki standa í vegi fyrir slíkum fyrirætlunum [atvinnumennsku, innsk. blm.] en samningurinn tryggir hins vegar að ef Tryggvi kýs að bíða með atvinnumannsferilinn eða gera hlé á honum og spila á Íslandi mun hann spila með Þór á Akureyri,“ segir í frétt á vef Þórs.

Tryggvi Snær, sem er aðeins 19 ára gamall, skoraði 11,6 stig að meðaltali í leik í vetur og tók 8,1 frákast. Hann verður vafalítið í lokahóp íslenska landsliðsins sem fer á EM í Helsinki í sumar en næst á dagskrá er ferð með Íslandi á Smáþjóðaleikana í San Marinó.

Sjálfur stefnir Tryggvi á að fara í atvinnumennsku en lið frá Evrópu hafa borið víurnar í hann í allan vetur. „Ég stefni á að fara út í haust til að leika körfubolta og er Evrópa  líklegasti áfangastaðurinn. Ég fór og skoðaði aðstæður hjá Valencia og líst mjög vel á það félag.  Næstu verkefni hjá mér í sumar eru með A-landsliðinu á smáþjóðaleikunum og í framhaldinu taka við leikir með U-20 liðinu,“ segir Tryggvi Snær Hlinason.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.