Lífið

Gott að hafa almættið með sér

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Magnús Kjartansson stýrir söng Brokkkórsins í Seljakirkju í hinni árlegu kirkjureið hestafólks á höfuðborgarsvæðinu.  mynd/Anton Brink
Magnús Kjartansson stýrir söng Brokkkórsins í Seljakirkju í hinni árlegu kirkjureið hestafólks á höfuðborgarsvæðinu. mynd/Anton Brink
Maggi Kjartans stýrir söng Brokkkórsins í guðsþjónustu hestamanna íSeljakirkju á morgun.

"Brokkkórinn flytur lög við sérstaka guðsþjónustu þar sem hestamönnum er boðið að koma ríðandi til kirkju. Séra Valgeir Sigurðsson predikar. Hann er mikill hestamaður sjálfur og byrjaði á þessu í samvinnu við fleiri fyrir nokkrum árum. Nú er þetta orðið að hefð,“ segir Magnús Kjartansson en árleg kirkjureið hestafólks á höfuðborgarsvæðinu fer fram á morgun. Riðið verður til Seljakirkju og segir Magnús, sem er hestamaður sjálfur, þetta stórskemmtilega uppákomu sem brjóti upp hversdaginn.

„Ef hestamenn sjá kirkjur vita þeir að frá þeim liggja reiðgötur til allra bæja í sveitinni og við þekkjum margar sögur frá því í gamla daga þegar fólk reið til kirkju. Þetta er gömul og skemmtileg hefð til að halda við og tækifæri til þess að gera eitthvað annað á hestbaki en ríða í hringi. Það halda allir kátir og glaðir til kirkju,“ segir Magnús. Eru hestamenn guðhrætt fólk upp til hópa? „Ja, allavega þennan dag,“ segir hann sposkur. Predikunin fjalli iðulega um efni sem eru ­hugleikin hestamönnum.

„Við lofum vorið og sumarkomuna í messunni og í predikun er lagt út af einhverju sem snertir hestamanninn. Reynt að finna þeirra viðkvæmustu strengi. Brokkkórinn leiðir almennan söng og flytur einnig þrjú lög, þar af er einn sálmur. Enda veitir ekki af fyrir hestafólk að kunna einn til tvo sálma og nokkrar bænir, það kemst stundum í þannig aðstæður að betra er að hafa almættið með sér. Eftir messu safnast fólk saman í kaffi og með því.“

Eru engir vasapelar á lofti? „Hingað til hefur ekki þurft að áminna neinn,“ segir Magnús og hlær.

Fjögur ár eru síðan Magnús flutti sig úr borgarhasarnum í sveitasæluna í Grímsnesi. Þar rjátla þau hjónin með hestana en lítinn annan búskap.

„Við höfðum lengi verið með skika þarna og ræktað. Foreldrar konunnar minnar þar við hliðina en afi hennar var síðasti ábúandi á jörðinni. Ýmsir rótarangar tengja okkur því við þennan stað. Þetta er lögbýli en við erum þó ekki með neinn búskap. Setjum kannski niður nokkrar kartöflur og mörgum finnst skrítið að við séum ekki einu sinni með hænur. En við getum fengið egg hjá nágrönnum, til að eiga í ommilettu fyrir gesti,“ segir Magnús.

Hann nái jarðtengingu í hestamennskunni og rólegheitin í sveitinni eigi vel við hann.

„Það myndast heilmikið jarðsamband á hestbaki og gott að gleyma öllu öðru um tíma, nema gangi hestsins og einbeita sér að því að hanga á baki. Þá hafa bænir oft komið sér ágætlega. Ég kenni einnig tónmennt á Borg í Grímsnesi og finnst það dásamlegt,“ segir hann. Líklega yrði hann ekki almennilegur bóndi.

„Þegar flugfreyja og tónlistarmaður eiga í hlut er afar erfitt að mæta reglulega í verkin eða fylgja nokkurri rútínu. En okkur líður vel þarna, laus við borgarstressið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.