Innlent

Auglýsingar sem fóru öfugt í mannskapinn

Betra er illt umtal en ekkert – en stundum hafa auglýsingar gengið fram af íslenskum almenningi.

Jakob Bjarnar skrifar
Þær eru margar auglýsingarnar og auglýsingaherferðirnar sem hafa náð að gera fólki gramt í geði.
Orðatiltækið betra er illt umtal en ekkert er í hávegum haft í auglýsingageiranum. Enda afbragðs skálkaskjól, auglýsingamenn geta alltaf brugðið því fyrir sig við taugaveiklaða skjólstæðinga sína ef viðbrögðin eru ekki alveg í takti við væntingar.

Nýleg auglýsingaherferð Íslandsbanka hefur kallað fram mikla reiði á samfélagsmiðlum. Hún þykir taktlaus og í raun salt í sár ungs fólks sem flest sér litla sem enga möguleika á að koma sér úr foreldrahúsum og fikra sig inn á fasteignamarkaðinn. Nema vera af ríkum komin.

Guðmundur Arnar, markaðsstjóri Íslandsbanka, er heilinn á bak við herferðina og líkast til hinn ánægðasti með hvernig til tókst þrátt fyrir víðtæka gremju.
Meðalaldur þeirra sem kaupa sína fyrstu eign er kominn upp í 32 ár. Kannski má segja að auglýsingaherferðin hafi farið út af sporinu, en þetta fer auðvitað eftir því af hvaða hóli er horft. Samkvæmt heimildum Vísis ríkir mikil ánægja með það innan bankans hvernig til hefur tekist og aldrei hafa fleiri leitað til ráðgjafa bankans.

Klámfengnar auglýsingar Icelandair

En, enginn hörgull er á dæmum um auglýsingar og auglýsingaherferðir sem hafa kallað fram reiði og hneykslan. Eitt frægasta dæmið eru auglýsingar Icelandair sem vildi gera út á fjörugt næturlífið í Reykjavík.

Dirty Weekend-auglýsingarnar féllu ekki í kramið en þær litu dagsins ljós á árunum 2001-2003. Sú hneykslan gekk svo langt að auglýsingarnar voru kærðar sérstaklega til Kærunefndar jafnréttismála, að auglýsingarnar brytu í bága við jafnfréttislög. „Fancy a dirty Weekend in Iceland?“ er auglýsing sem birtist á veggspjöldum á neðanjarðarlestarstöðvum í London og á heimasíðu Flugleiða hf./Icelandair ehf. í Bretlandi.

Dirty Weekend-herferð Flugleiða þótti yfirgengilega ósmekkleg en þar var gert út á meint lauslæti íslenskra kvenna.
Herferðin var býsna kræf og vandséð að nokkur hefði svo mikið sem látið sér detta annað eins í hug í dag: „One Night Stand in Reykjavík“ var svo önnur auglýsing sem birtist í Bretlandi. Önnur var „Free Dip in every Trip“ en kynningarbæklingur Flugleiða hf. /Icelandair ehf. var með þessari yfirskrift, gefinn út og dreift í Skotlandi, einkum Glasgow. Sams konar auglýsingar voru einnig gerðar fyrir flutningabíla í Skotlandi.

Og þeir voru blautlegir í sinni sem auglýstu flugferðir til Íslands fyrir hönd Flugleiða/Icelandair. Þann 24. september 2002 var sendur tölvupóstur til hérlendra netklúbbsfélaga Flugleiða hf. og segir í upphafi skeytisins „Nú ertu með tvær í takinu“. Og þá voru aðgengilegir á heimasíðu Flugleiða hf. eftirfarandi tölvuleikir sem bera yfirskriftina: „Halldor gets lucky in the Blue Lagoon“ og „Hildur gets lucky in the Blue Lagoon“. Þeir birtust fyrst í maí 2002 og voru á heimasíðum Flugleiða hf. og í Skandinavíu fram á haust það ár. Svo vitnað sé til kærunnar.

Þessar auglýsingar gengu fram af flestum ekki bara sómakærum jafnréttissinnum, þær töldust þá (hvað þá nú) þrungnar kvenfyrirlitningu. Og var málið meðal annars til umfjöllunar í Fréttablaðinu. En kærunni var reyndar vísað frá.

Meint líkamssmánun Reebok

Fyrir síðustu jól tókst líkamsræktarstöðinni Reebok Fitness að kalla fram reiði margra með slagorðinu: „Losaðu þig við jólalögin“. Tvírætt en myndskreytingin í heilsíðuauglýsingu átti að beina fólki í átt til rétts skilnings, að þetta hefði minnst með tónlist að gera. Þar var mynd af þrifalegri og búttaðri babúsku sem hvatti fólk til að segja „bless við reykta kjötið, konfektið og frómasinn“.

Á tímum meintra fitufordóma og líkamssmánunar þótti mörgum þetta fyrir neðan allar hellur. Og braust reiði út í athugasemdakerfi Reebok Fitness þar sem þeim sem þar ráða húsum var sagt til syndanna: „Fyrir utan að valda skömm og smánun með feitu fólki, eflir þetta fitufordóma innan samfélagsins. Sammist ykkar Reebok Fitness Ísland.“

Þeim í Samtökum um líkamsvirðingu var ekki skemmt þegar Reebok boðaði það að nú væri vert að losa sig við „jólalögin“.
Samtök um líkamsvirðingu fóru fyrir hópi þeim sem fordæmdu auglýsinguna afdráttarlaust. Á Facebooksíðu samtakanna var meðal annars sagt, af þessu tilefni: „Jæja, þá er hin árlega líkamssmánun af hendi líkamsræktarstöðva byrjuð. Í staðinn fyrir að fara þá leið að hvetja og valdefla fólk af öllum stærðum og gerðum til að bæta heilsu sína á jákvæðum nótum er þessi leið farin. Skilaboð eru send um að feitir líkamar séu skammarlegir og að innra með hverjum og einum þeirra búi annar og grennri líkami.“

Samtökin segja að allir geti bætt heilsu sína óháð því hvort þyngdartap verði eða ekki. Þau gagnrýna fitufordóma harðlega og segja þá risastórt lýðheilsuvandamál. „Engin annar bransi græðir á smánun eins og megrunarbransinn,“ segir í færslu samtakanna. „Það er kominn tími til að vekja athygli á því og stoppa það!“

Harakiri á internetinu

Það bar til tíðinda í upphafi árs 2016 að heimatilbúin auglýsing þeirra sem reka ölstofuna Riddarann við Engihjalla í Kópavogi gekk algerlega fram af fólki. Þeir sendu viðskiptavinum sínum svohljóðandi orðsendingu á Facebook-vef sínum:

„Hey.. Við erum bùinn að opna à þessum fallega og frìskandi mànudegi..hvar eru? Gleðistundin er byrjuð...og jòlin að klàrast.“ Og með fylgdu broskallar með sólgleraugu.

En, það voru ekki skilaboðin sem kölluðu fram almenna hneykslan heldur myndin sem fylgdi, en þar mátti sjá unga konu í jólasveinabúningi tjóðraða undir jólatré.

Auglýsing Riddarans hvarf og hafa stjórnendur klæpunnar þeirrar ekki reynt að feta þessa slóð aftur, í auglýsingastarfsemi sinni.
Líkast til hefur þetta verið með vísan í einhvern vafasaman brandara um þann sem neytir allra bragða til að komast á pöbbinn. Auglýsingin þótti ógeðsleg.

„Þetta er til háborinnar skammar. Á ekki til orð,“ segir ein kona sem tjáir sig á síðunni. Og önnur bætir við: „Þetta er ógeðslegt ég hef aldrei verið jafn pirruð út í auglýsingu.“

Fjölmargir tjá sig um auglýsinguna aðrir og taldi einn að þarna hafi Riddarinn framið „Internet harakiri dagsins“. Vísir fjallaði um málið, tókst á endanum að ná sambandi við forsvarsmenn pöbbsins sem vildi gera sem allra minnst úr málinu og alls ekki tjá sig. En, auglýsingin hvarf og hefur ekki sést síðan.

Strákarnir á íþróttadeildinni

Ekki þarf að leita langt yfir skammt eftir auglýsingum sem falla í grýttan jarðveg. Kröfugerðin um kynjakvóta í fjölmiðlum hefur verið hávær undanfarin ár. Og það er reyndar svo að það eru ekki síst femínistar sem hafa hjá sér augun ef auglýsingamenn ganga ekki í takti við ríkjandi viðhorf sín. Því þótti bera vel í veiði eða vera frekar óheppilegt, eftir því hvernig á það er litið, þegar Stöð 2 kynnti stolt vel mannaða íþróttadeild sína. Vissulega föngulegur hópur en ekki fer á milli mála að þarna eru eintómir karlar á ferð.

Þetta var í upphafi sumars í fyrra og vefmiðillinn Nútíminn stökk á málið og greindi frá stækri óánægju sem braust út á samfélagsmiðlum:

Nútímanum þótti ekki leiðinlegt að fjalla um málið en karlarnir á íþróttadeildinni máttu þola að ganga svipugöng femínista.
„Auglýsing í Fréttablaðinu í dag frá íþróttadeild 365 hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan en á henni stilla sér upp tólf karlar úr íþróttadeildinni sem er sögð sú öflugasta á landinu.“

Tólf karlar hvorki meira né minna. Það þótti mikið meira en nóg af svo góðu. Margrét Gauja Magnúsdóttir deildi auglýsingunni á Facebook og sagist hafa hlegið upphátt. „Stöð 2 algerlega með puttann á púlsinum og með það á hreinu að konur vita ekkert um íþróttir,“ segir hún. Nútíminn vitnar einnig til viðbragða Sunnu Valgerðardóttur, fréttakonu á RÚV, á Facebook: „Verið karlar, ráðið karla og höfðið til karla.“

Og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, var í ham en hún hóf grjótharðan pistil sinn svona: „Á heilsíðu í Fréttablaðinu í dag er mynd af hópi miðaldra og missköllóttra manna.“

Meint kvenfyrirlitning í samsetningu dekkja

Af nógu er að taka þegar um er að ræða auglýsingar sem vekja hneykslan og reiði. Og oft er það svo að þeir sem auglýsa vita varla hvaðan á sig stendur veðrið. Þannig var um þá hjá Dekkjaverkstæðinu Dekkverki sem undir lok ársins 2015 birtu auglýsingu í Fréttablaðinu sem vakti mikla athygli netverja. En þar mátti sjá dekk í líki nakins kvenlíkama.

Auglýsingunni var deilt í hópum á Facebook á borð við Beauty Tips 30+ og Markaðsnördum en margir töldu að þarna væri verið að nota kvenmannslíkamann til að vekja athygli á vöru. Og það er nónó.

Eiganda Dekkverks furðaði sig á því að auglýsing hans hafi farið fyrir brjóstið á fólki sem taldi að þarna væri verið að nota kvenlíkamann til að koma varningi á framfæri.
Vísir ræddir við Guðmund Örn Guðjónsson eiganda sem sagði blaðamanni að það hafi sannarlega ekki staðið til að móðga fólk. „Þessi viðbrögð koma mér mjög á óvart þar sem við vorum með sambærilega mynd af karlmanni í fyrra sem var búið að móta svona í dekk og fengum mjög góðar viðtökur við því. Ég skil ekki hver munurinn er á þeirri mynd og myndinni sem við birtum núna,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði myndina komna frá West Lake-dekkjaframleiðandanum og hún hafi verið birt í mun fleiri löndum en bara hér á landi. Og hvergi hafi hún verið gagnrýnd nema á Íslandi. Það er nefnilega það. Og á athugasemdakerfi Vísis telja ýmsir að nú sé vandlætingin komin yfir strikið.

Hneykslun vegna hneykslunar

Mörg fleiri dæmi mætti nefna en það er ef til vill ágætt að loka þessari yfirreið á því að nefna til sögunnar hneykslun vegna hneykslunar. Í máli sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Fréttablaðið greindi frá því árið 2007 að Guðbjörg Hildur Kolbeins, doktor í fjölmiðlafræði og lektor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands hafi tilkynnt á póstlista Femínistafélagsins að hún og eiginmaður hennar hafi sent Umboðsmanni barna erindi vegna forsíðu á fermingarbæklingi Smáralindar.

Á bloggsíðu sinni fór Guðbjörg Hildur svo afar hörðum orðum um forsíðuna: „Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum," sagði doktor Guðbjörg. Henni var fyrirmunað að skilja hvernig þeim sem að þessum bæklingi stóð datt í hug að blanda saman táknum saklausrar barnæsku og stellingum úr klámmyndum.

Guðbjörg Hildur Kolbeins þótti fara yfir strikið í túlkunarfræðum sínum á Smáralindarbæklingnum en málið vakti mikla athygli.
Útleggingar doktorsins á því hvað hún ímyndaði sér að gerist í framhaldinu af þessari meintu klámfengnu stellingu fermingarstúlku þóttu of dónalegar til að Fréttablaðið vogaði sér að vitna í það.

Markaðsstjóri Smáralindar, Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, brást harkalega við túlkun Guðbjargar Hildar: „Þetta kom mér verulega á óvart. Ég hef ekki hugmyndaflug í svona. Ég er farin að hafa af því áhyggjur hvert þetta þjóðfélag er að stefna. Þetta er fermingarbarn og hún sér bara einhvern sora út úr þessu. Það hlýtur að vera á hennar ábyrgð,“ sagir Eva Dögg.

Guðbjörg Hildur vildi ekkert tjá sig um málið og dró sig í hlé eftir að málið kom upp. Viðbrögðin á netinu voru ofsafengin en þar bar mest á þeim sem fordæmdu harðlega túlkunarfræði Guðbjargar Hildar. Það var eins og þjóðin væri ekki orðin almennilega opin fyrir því hversu gefandi það getur verið að hneykslast hressilega. Nema þá með þessum öfugu formerkjum. Eva Dögg taldi þjóðina hafa dæmt í málinu og faðir fyrirsætunnar furðaði sig á því að Guðbjörg Hildur legði ekki fram afsökunarbeiðni. „Algerlega hömlulaust þetta blogg og þar virðist fólk geta sagt hvað sem er,” sagði Ágúst.






×