Innlent

Tvær líkamsárásir, festi bíl á grjótgarði við Faxaskjól og þrír í haldi eftir bílveltu

Birgir Olgeirsson skrifar
Talsverður erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Talsverður erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Hari
Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Tvær líkamsárásir voru tilkynntar og voru höfð afskipti af nítján einstaklingum sem allir voru grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna.

Klukkan eitt í nótt handtók lögreglan mann við veitingastað í Austurstræti í Reykjavík. Var maðurinn ölvaður og hafði ráðist á dyravörð. Hann neitaði að veita lögreglu persónuupplýsingar og var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. 

Skömmu síðar voru höfð afskipti af ökumanni bifreiðar í Skeifunni sem var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig með hníf í vasanum sem hann afsalaði til eyðingar.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var tilkynnt um bíl sem var fastur á grjótgarði við Faxaskjól. Ökumaður bílsins var ung kona sem hafði reynt að losa bílinn en þegar lögreglan kom á vettvang var hún í mjög annarlegu ástandi og grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hún var vistuð í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins., 

Á þriðja tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um bílveltu við Miklubraut, afreið að Reykjanesbraut. Þrír menn voru handteknir grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ásamt vörslu fíkniefna og fleira. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu eftir að hafa fengið aðhlynningu á slysadeild.

Þrír ökumenn, einn á Hringbraut, á Egilsgötu, og sá þriðji á Hvaleyrarbraut, voru sviptir ökuréttindum ökuréttindum á staðnum vegna ítrekaðra brota.

Rétt fyrir klukkan fimm í morgun var maður handtekinn í Austurstræti grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×