Innlent

Lítið svigrúm samkvæmt Salek til að hækka laun lækna

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Lítið svigrúm er til að hækka laun lækna samkvæmt Salek samkomulaginu en kjarasamningur þeirra rennur út eftir rúmar tvær vikur. Formaður Læknafélags Íslands, Þorbjörn Jónsson, vill ekki gefa upp hvort kröfugerð félagsins rúmist innan samkomulagsins. Þá dregur hann í efa að verkfallsvopnið yrði virt af hálfu ríkisins, í ljósi lagasetningar á kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og félagsmanna BHM.

Kjarasamningur lækna rennur út 30. apríl og eru samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins búnar að hittast á þremur fundum.

Þorbjörn segir góðan anda í viðræðunum.

„Þannig að ég held að það sé engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn,” segir Þorbjörn.

32 prósent til ársloka 2018

Salek samkomulagið kveður á um samræmda launastefnu til ársloka 2018. Í samkomulaginu kemur fram að laun megi ekki hækka um meira en sem nemur 32 prósentum frá nóvember 2013 til ársloka 2018.

Læknar fengu að meðaltali um 25 prósenta launahækkun í kjarasamningum sem undirritaðir voru í byrjun árs 2015, en þeir höfðu árin á undan dregist aftur úr viðmiðunarstéttum. Þá hækkuðu laun þeirra um tvö og hálft prósent 2016 og um eitt og hálft prósent um síðustu áramót. Alls hafa laun þeirra því að meðaltali hækkað um 29 prósent á þessu tímabili.

Ekki rætt við lækna við gerð Salek

Bæði ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að halda sig innan ramma Salek samkomulagsins og því má spyrja – er ekki lítið svigrúm samkvæmt Salek samkomulaginu til að hækka laun lækna?

„Ég myndi nú vilja svara þessu þannig að það var ekkert rætt við okkur eða fjölmörg önnur launþegasamtök við gerð Salek samkomulagsins,” segir Þorbjörn.

En rúmast ykkar kröfugerð innan Salek samkomulagsins?

„Ég eiginlega get ekki svarað því,” segir Þorbjörn.



Ekki lofandi að verkfallsvopnið yrði virt

Síðustu kjaradeilu lækna lauk með samningum eftir rúmlega tveggja mánaða verkfall en Þorbjörn segir erfitt að segja til um hvort nú hægt verði að afstýra verkfalli.

„Það má benda á það að það voru auðvitað sett lög á síðustu samningagerð hjá hjúkrunarfræðingum og BHM. Og það auðvitað er ekki lofandi fyrir það að verkfallsvopnið yrði virt,” segir Þorbjörn.

Samninganefndir lækna og ríkisins munu hittast fljótlega eftir páska, en á morgun eru tvær vikur þar til kjarasamningurinn rennur út.

Reiknar þú með að þið náið að klára viðræðurnar fyrir þann tíma?

„Ekki finnst mér það nú líklegt, ef ég á að vera alveg heiðarlegur,” segir Þorbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×