Karlalið ÍBV í handbolta hefur lokið leik í vetur en Eyjamenn töpuðu fyrir Valsmönnum, 26-27, í oddaleik í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í dag.
Þetta eru mikil vonbrigði fyrir ÍBV enda var mikið lagt í liðið í ár og sterkir leikmenn fengnir til Eyja.
ÍBV var í vandræðum fyrir áramót en fór svo á mikið flug eftir HM-fríið. Eyjamenn unnu níu af 11 leikjum sínum eftir áramót og virtust til alls líklegir.
Eyjamenn unnu m.a. öll fjögur liðin sem nú eru komin í undanúrslit eftir 17. febrúar og það með samtals 22 marka mun eða 5,5 mörkum að meðaltali í leik.
Þeir unnu sjö marka sigur á Aftureldingu (31-24), níu marka sigur á FH (30-21), fimm marka sigur á Fram (30-25) og eins marks sigur á Val (30-29).
Öll þessi lið eru hins vegar komin í undanúrslitin en ÍBV situr eftir með sárt ennið.
Sigrar ÍBV á undanúrslitaliðunum í síðustu umferðunum Olís-deildarinnar:
Lau. 18. feb. Fram - ÍBV 25-30 (12-15), Framhús
Sun. 5. mars Afturelding - ÍBV 24-31 (14-17), Varmá
Fim. 9. mars ÍBV - FH 30-21 (14-13), Vestmannaeyjar
Þri. 4. apríl Valur - ÍBV 29-30 (19-12), Valshöllin
Unnu öll fjögur undanúrslitaliðin á síðustu 56 dögum en eru nú úr leik

Tengdar fréttir

Umfjöllun: ÍBV - Valur 26-27 | Valsmenn komnir í undanúrslit
Valur er kominn í undanúrslit Olís-deildar karla eftir ótrúlegan eins marks sigur, 26-27, á ÍBV í oddaleik í Eyjum í dag.

Umfjöllun: Haukar - Fram 45-47 | Fram sendi Íslandsmeistarana í sumarfrí eftir vítakastkeppni
Fram er komið í undanúrslit Íslandsmótsins í handbolta eftir sigur á Haukum eftir vítakastkeppni oddaleik liðanna að Ásvöllum í dag. Lokatölur 47-45 eftir að Fram hafði leitt 14-13 í hálfleik.