Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í beinni

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) leggst alfarið gegn hugmyndum samgönguráðherra um vegtolla til að fjármagna framkvæmdir. Ráðherra upplýsti í gær í þættinum Víglínunni á Stöð 2 að verið væri að skoða stórtækar endurbætur á vegakerfinu sem fjármagnaðar væru með vegtollum. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 verður rætt við Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra FÍB.

Í fréttatímanum verður einnig fjallað um sjómannaverkfallið en formaður Verkalýðsfélags Akraness segist ekki skilja hagfræði útgerðarinnar þegar fjárhæðir eru bornar saman. Heildarkröfur sjómanna eru 1,6 til 2 milljarðar króna eða aðeins brot af tekjutapi þjóðarbúsins og ríkisins vegna verkfallsins.

Við fjöllum líka um forsetakjörið í Þýskalandi en Frank-Walter Steinmeier var í dag kjörinn forseti Þýskalands. Forseti Þýskalands er virðingarstaða en forsetinn er kjörinn af þýska þjóðþinginu og jafnmörgum fulltrúum ríkjanna.

Við fjöllum líka um álverið á Reyðarfirði en sóknarprestur Breiðdælinga telur álverið vera eina af þremur lífskjarabyltingum Austurlands og vill helst ekki hugsa þá hugsun til enda hvað hefði gerst á svæðinu ef álverið hefði ekki verið byggt.

Þá fjöllum við um einstaka bókagjöf Ágústs Einarssonar prófessors en hann færði Vestmannaeyjabæ að gjöf veglegt safn fágætra bóka sem hafa verið í eigu fjölskyldu hans. Ágúst færði bænum bækurnar í minningu föður síns, Einars Sigurðssonar útgerðarmanns.

Ekki missa af fréttum kl. 18:30 í opinni dagskrá á Stöð 2 og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×