Grindavík tapaði fyrir Stjörnunni í 20. umferð Domino's deild karla á fimmtudaginn.
Eftir leikinn kvartaði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, yfir því að hans menn færu ekki eftir því sem þeim væri sagt að gera.
Bróðir Jóhanns, Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, talaði einnig tæpitungulaust og sagði að reynslumiklir leikmenn liðsins væru að hugsa um eitthvað allt annað en að spila körfubolta.
Strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi ræddu um þessi ummæli Ólafssona og ástandið á Grindavíkurliðinu í þættinum á föstudaginn.
„Miðað við þessi viðtöl vantar einhverja sameiningu í þetta lið. Ef þetta er málið eru menn í sínum hornum. Og ef það er að gerast, á þessum tímapunkti, eru þeir í virkilega slæmum málum,“ sagði Hermann Hauksson.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
