Snorri Steinn Guðjónsson og Árni Þór Sigtryggsson skrifuðu nú í hádeginu undir samning við Íslands- og bikarmeistara Vals.
Það var gert á blaðamannafundi á Hlíðarenda. Magnús Óli Magnússon var einnig kynntur til leiks á fundinum en hann samdi við Valsmenn á dögunum.
Snorri Steinn er því kominn heim til uppeldisfélags síns. Hann mun ljúka glæstum ferli þar sem hann byrjaði. Þessi magnaði leikstjórnandi er orðinn 35 ára gamall en virðist eiga nóg eftir. Það sannaði hann rækilega í frönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem hann varð níundi markahæsti leikmaður deildarinnar og lék frábærlega fyrir Nimes.
Akureyringurinn Árni Þór Sigtryggsson er einnig að snúa til baka heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi. Hann fór utan árið 2010 en hefur leikið með EHV Aue frá árinu 2013.
Það þarf lítið að fjölyrða um hversu mikill liðsstyrkur þetta er fyrir meistarana sem ætla sér augljóslega að vera áfram á toppnum næsta vetur.
Snorri Steinn og Árni Þór orðnir leikmenn Vals
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Mest lesið



Sigurður Breki á spítala eftir harkalegt samstuð
Íslenski boltinn







Sjáðu mörkin úr veislunni í Mosó og vítið sem Fram fékk
Íslenski boltinn