Innlent

Mun færri stúlkur í Danmörku láta bólusetja sig

þórhildur þorkelsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Þátttaka stúlkna í bólusetningu gegn leghálskrabbameini í Danmörku hefur minnkað úr 90% í 30% í kjölfar frétta um meintar aukaverkanir bóluefnisins Gardasil. Sóttvarnarlæknir segir málið alvarlegt í ljósi þess að ekkert bendi til þess að raunveruleg tengsl séu á milli bólusetninganna og aukaverkananna.

Þetta kom fram á norrænu bólusetningarþingi í Reykjavík sem haldið var í lok apríl. Þessar aukaverkanir eru einkum þreyta, slappleiki og óljósir vöðvaverkir. Danir eru eina þjóðin þar sem tilkynnt hefur verið um viðlíka fjölda aukaverkana en í heiminum öllum hafa um 80 milljónir einstaklinga verið bólusettir. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að rannsókn í Danmörku hafi leitt í ljós að þær stúlkur sem kvörtuðu um ofangreindar aukaverkanir hafi verið með svipuð einkenni fyrir bólusetninguna og því er tengingin við bóluefnið óljós.

„Ástæðan er sú eins og var kynnt þarna á þinginu eru sú að það komu upp sögusagnir um aukaverkanir af bóluefninu í bólusetningunni í Danmörku. Þetta er annað bóluefnið sem er notað þar en hér. En aukaverkanirnar voru einkum þær að þær stúlkur sem voru bólusettar fundu fyrir verkjum og þreytu og svona óljósum einkennum og þessar sögusagnir sem voru mjög áberandi í fjölmiðlum leiddu til þess að þátttakan datt svona mikið niður,” segir Þórólfur.

Lyfjastofnun Evrópu gaf út yfirlýsingu í nóvember 2015 um að engin merki væru um að Gardasil bóluefnið tengdist alvarlegum aukaverkunum að á Íslandi hafi hins vegar bóluefnið Cervarix verið notað hjá 12 ára stúlkum frá 2011 og yfirliði og þreytu verið lýst hjá einungis örfáum stúlkum í kjölfar bólusetningar. Þórólfur bendir á að vísindarannsóknir á bóluefnunum Gardasil og Cervarix sýni að bóluefnin dragi verulega úr forstigsbreytingum leghálskrabbameins.

„Þessi umræða heldur áfram og hefur skaðað þeirra bólusetningaprógramm varðandi þetta bóluefni mjög mikið og þeir hafa áhyggjur af því að það muni einnig skaða aðrar bólusetningar í Danmörku sem gæti valdið mjög alvarlegum afleiðingum bara með því að aðrir sjúkdómar gætu þá blossað upp,” segir Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×