Innlent

Síbrotamaður fékk tólf mánuði fyrir tvær líkamsárásir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Önnur líkamsárásanna var í Bríetartúni í október árið 2014.
Önnur líkamsárásanna var í Bríetartúni í október árið 2014. vísir/valli
Styrmir Haukdal Snæfeld Kristinsson var í Héraðsdómi Reykjaness fyrir helgi dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir. Árásirnar tvær áttu sér stað í október og nóvember árið 2014.

Fyrri árásin átti sér stað í Bríetartúni í október. Styrmi var gefið að sök að að hafa ítrekað slegið með krepptum hnefa og sparkað í og stappað á höfði annars manns sem lá sofandi á dýnu, með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og hlaut margúl og hruflsár vinstra megin á enni.

Sú síðari átti sér stað í nóvember í fjölbýlishúsi við Hestavað. Þá var honum gert að sök að hafa slegið ítrekað með krepptum hnefa í andlit konu og síðar sömu nótt, eftir að lögreglu bar að garði, slegið hana með krepptum hnefa í andlitið allt með þeim afleiðingum að hún hlaut nefbrot, heilahristing og dreifð þreifieymsl.

Fyrir dómi neitaði Styrmir sök í báðum tilfellum. Í því fyrra vildi hann meina að þegar hann kom í Bríetartún hefði maðurinn haft áverkana þegar sig bar að garði. Hann viðurkenndi að hafa klappað honum til að reyna að ná athygli hans en hafnaði meintri líkamsárás.

Brotaþoli bar um það að hann hafi verið sofandi, en vaknað við það að ákærði hafi stappað ofan á andlitinu á honum og sparkað í andlit hans í svörtum klossum með þykkum botni. Fyrir dómi greindi læknir á bráðamóttöku Landspítalans frá því að áverkar á brotaþola gætu samrýmst því að hann hefði fengið högg á andlit eða á höfuð, en ekki væri hægt að greina á milli þess hvort sparkað hafi verið í brotaþola eða hann kýldur eða sleginn í höfuðið. Ekki þótti sannað að Styrmir hefði sparkað í manninn en ljóst að hann hefði slegið hann. Því var hann sakfelldur fyrir þann hluta ákærunnar.

Hvað síðari líkamsárásina varðar viðurkenndi Styrmir að hafa slegið konuna eftir að lögreglu bar að garði. Hann hafnaði því hins vegar að hafa gert það áður. Í læknisvottorði sagði að konan hefði hlotið nefbrot, heilahristing og yfirborðsáverka. Í framburði sama læknis fyrir dómi kom fram að ómögulegt væri að slíkir áverkar hefðu myndast við eitt högg. Sannað þótti að Styrmir hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök.

Styrmir, sem er tæplega fertugur, á sakaferil sem nær aftur til ársins 1993. Hann hefur alls tólf sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegninarlögum og umferðarlögum. Fimm sinnum hefur hann gengist undir sátt vegna brota gegn sömu lögum. Hann hefur fimm sinnum verið dæmdur í fangelsi fyrir líkamsárás, fyrst árið 1994.

Styrmir afplánar sem stendur fjögurra ára dóm fyrir hættulega líkamsárás sem átti sér stað úti á Granda í ársbyrjun 2015. Þá stakk hann mann mann í brjóstið með hníf.

Dóm Héraðsdóms Reykjaness, en dómurinn var fjölskipaður, má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×