Innlent

Stýrihópur vill gönguvænni miðborg og bæta hjólaaðgengi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Meðal tillagna stýrihóps kjörinna fulltrúa er að umbreyta akstursæðum í akfær, áhugaverð og gönguvæn miðborgarrými.
Meðal tillagna stýrihóps kjörinna fulltrúa er að umbreyta akstursæðum í akfær, áhugaverð og gönguvæn miðborgarrými. vísir/gva
Miðborgarsjóður, bætt hjóla- og gönguaðgengi, og aðgerðir sem stuðla að því að miðborgin sé áhugaverður og spennandi áfangastaður fyrir íbúa borgarinnar og landsmenn alla, ekki síður en erlenda gesti, eru meðal þess sem stýrihópur um málefni miðborgar leggur til í nýrri skýrslu. 

Meginviðfangsefni stýrihópsins var að skoða fyrirkomulag málefna miðborgarinnar innan stjórnkerfis borgarinnar sem og formlegt fyrirkomulag samstarfs og samráðs við íbúa, rekstraraðila og aðra hagsmunaaðila í miðborginni.

Meðal tillagna er að leggja meiri áherslu á vistvænar samgöngur og gangbæra borg, með því að umbreyta akstursæðum í akfær, áhugaverð og gönguvæn miðborgarrými, að bæta göngu- og hjólaaðgengi að og um hafnarsvæðið, að styrkja þvertengsl og fjölga hjólastæðum.

Einnig eru hugmyndir um að skoða möguleika á að samræma vöruafgreiðslutíma til rekstraraðila víðar en á Laugavegi og að gera áætlun um samstillta opnunartíma verslana, sundstaða og veitingastaða til að efla tengsl milli ólíkrar þjónustu og tryggja líf á ólíkum tímum sólarhrings.

Lagt er til að stofnaður verði Miðborgarsjóður sem úthluti allt að 20 milljónum króna árlega til að efla hagsmunasamtök og grasrótarsamtök í samræmi við miðborgarstefnu.

Ein hugmyndanna í skýrslunni er einnig að auka „venjulega" vinnustaði í miðborginni og að „plögga" miðborgina sem stað til að reka fyrirtæki þar sem störf í ferðaþjónustu í miðborginni eru láglaunastörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×