Innlent

Segir forsendur lokunar neyðarbrautar marklausar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Af Reykjavíkurflugvelli.
Af Reykjavíkurflugvelli. vísir/gva
Sigurður Ingi Jónsson, varamaður Framsóknar og flugvallarvina í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, segir gögn sem notuð voru við ákvarðanatöku um að loka NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar ýmist úrelt, röng eða marklaus.

Sigurður segir til að mynda að skýrsla Isavia um nothæfisstuðul fyrir sjúkraflugvélar á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli, þverbrjóta reglugerð um flugvelli. „Búinn er til einn lendingarstaður úr tveimur flugvöllum, Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli, síðan stuðst við hámarks hliðarvindsstuðul langt umfram það sem reglugerð segir til um,“ segir Sigurður. Þá gagnrýnir hann einnig skýrslur verkfræðistofunnar Eflu. „Efla verkfræðistofa hefur ríka fjárhagslega hagsmuni af viðskiptum við Reykjavíkurborg, einnig hefur komið fram að framkvæmdastjóri félagsins er hluthafi í Valsmönnum hf., því verður ekki fallist á að Efla verkfræðistofa sé óháður aðili,“ segir í bókun Sigurðar frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Sigurður segir að ítrekað hafi verið bent á galla í skýrslum Eflu og Isavia „af þar til bærum sérfræðingum, svo sem öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna“. Hann segir ábendingum þeirra hafa verið vísað frá með fullyrðingum um að atvinnuflugmenn séu hagsmunaaðilar.

„Þetta er ákaflega grunnhyggin fullyrðing þar sem einu hagsmunirnir sem atvinnuflugmenn hafa í þessu máli er að koma sér og sínum farþegum örugglega á milli staða. Þeir sem hafa hag af því að knýja á um að loka brautinni, svo unnt sé að byggja blokkir í aðflugsstefnu brautarinnar, þeir eru hinir raunverulegu hagsmunaaðilar,“ segir Sigurður. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×