Innlent

Kolefnisjafna eigin akstur til vinnu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Randver Fleckenstein, verkefnastjóri í stýrihóp á sviði samfélagsábyrgðar hjá Valitor, Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, Einar Gunnarsson, frá Kolviði og Lára Björk Erlingsdóttir, fulltrúi starfsmanna í stýrihópi samfélagsábyrgðar hjá Valitor.
Randver Fleckenstein, verkefnastjóri í stýrihóp á sviði samfélagsábyrgðar hjá Valitor, Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, Einar Gunnarsson, frá Kolviði og Lára Björk Erlingsdóttir, fulltrúi starfsmanna í stýrihópi samfélagsábyrgðar hjá Valitor.
„Starfsfólk okkar vill gjarnan taka enn frekari þátt í að hugsa um umhverfið,“ segir Randver Fleckenstein fræðslustjóri Valitors um samning sem fyrirtækið hefur gert við Kolvið.

Samningurinn felur í sér að starfsfólk kolefnisjafnar eigin akstur til og frá vinnu. „Starfsfólk sem skrifar undir þennan samning veitir okkur leyfi til að draga af launum þeirra mánaðarlega, eins og einn eldsneytistank á ársgrundvelli og greiðslurnar renna til Kolviðs,“ segir Randver frá.

Markmið samningsins er að binda kolefni sem fellur til vegna aksturs starfsmanns á ársgrundvelli. Kolviður hefur umsjón með kolefnisbindingunni sem á sér stað í gróðri og jarðvegi með skógrækt og landgræðslu.

Þetta er í fyrsta skipti sem gerður er álíka samningur hér á landi en vanalega varða slíkir samningar aðeins ferðir á vegum fyrirtækisins. „Viðbrögðin eru jákvæð. Valitor kolefnisjafnar allar flugferðir og ökuferðir á vegum fyrirtækisins en við gerum okkur grein fyrir að fólk vill gera betur,“ segir Randver.

„Með þessu fyrirkomulagi við Kolvið erum við að bjóða þeim starfsmönnum sem hafa ekki möguleika á að vera með samgöngusamsamning við félagið tækifæri á því að vernda umhverfið. Á þennan hátt getum við verið ábyrgari í okkar umhverfismálum og stuðlað að vitundarvakningu meðal starfsmanna,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×