„Ég hef komið hingað nokkrum sinnum og bara hlotið ást og virðingu,“ segir Rodney í samtali við Vísi. „Það er frábært að geta komið með eitthvað í farteskinu fyrir börnin hérna.“
Rodney starfar sjálfstætt og hefur gefið út þrjár plötur á ferli sínum. Hann hefur einnig unnið lög með hljómsveitunum Bastille og Major Lazer.

Rodney hefur nýverið sett sig í rithöfundastólinn og er bókin Block Party hans fyrsta í því sem hann vonast til að verði sería um Rikka rappara. Snáði er sjö ára drengur sem spilar fótbolta og körfubolta og jú... rappar.
„Ég vildi nota hiphop til þess að stuðla að jákvæðri breytingu. Þar sem hiphop er í dag öflugasta form tónlistar, bæði í tónlist og lífsstíl, þá langaði mig til þess að nýta það til þess að hvetja sex eða sjö ára gamla krakka til þess að sýna kærleika og virðingu. Þarna fæ ég tækifæri til þess að verða öflugri sem listamaður. Erfiðasti hópur til þess að sannfæra eru krakkarnir. Hlutir verða að smella strax með þeim og vera litríkir og skemmtilegir.“
Rodney á engin börn en prufukeyrði söguna sína á litlu frænkur sína og frændur.
„Ég er frá Chicago og ég trúi því að við höfum kraftinn til þess að breyta því hvernig fjölmiðlar fjalla um sum hverfi þar. Með þessu langaði mig til þess að senda út jákvæða mynd af hverfinu mínu.“
Theodore Taylor III myndskreytir bókina en hann hefur einnig teiknað barnabækur um Little Shaq sem eru eins konar endurminningar körfuboltamannsins Shaquille O‘Neal frá barnæsku.
Rodney kemur fram á Barnaspítala Hringsins klukkan tvö í dag. Hann býst við því að koma aftur til Íslands eftir nokkra mánuði til þess að kynna bókina betur.
Hér má svo heyra lagið Shaka Zulu með F.Stokes.