Handbolti

Þórir lætur EHF heyra það

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þórir er svekktur út í EHF.
Þórir er svekktur út í EHF. vísir/afp
Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs, nýtti blaðamannafund sinn á EM í gær til þess að gagnrýna Handknattleikssamband Evrópu, EHF.

„Það er stanslaust álag. Það eru orðnir fleiri leikir í Meistaradeildinni og EM kemur aðeins fjórum mánuðum á eftir Ólympíuleikunum. Þetta er of mikið,“ sagði Þórir harður.

„Afleiðingin af þessu er að fleiri og fleiri leikmenn sleppa stórmótum því þeir þurfa á hvíldinni að halda. EHF spyr svo aldrei þjálfara og leikmenn út í þessi mál. Þetta er fólkið sem á að ræða við þegar ákveðið er að setja meira álag á leikmenn. Þetta snýst allt um markaðssetningu og peninga.“

Á þetta hlustaði JJ Rowland, fjölmiðlafulltrúi EHF, og Selfyssingurinn sá til þess að fulltrúi EHF heyrði gagnrýnina.

„Handknattleiksmenn eiga að geta spilað til 35-36 ára aldurs og markverðir þar til þeir verða fertugir. Þetta mál þarf að taka upp eftir leikana.“

Þjálfari franska landsliðsins, Olivier Krumbholz, tók undir gagnrýni Þóris.

„Það á ekki að vera EM sama ár og Ólympíuleikar eru. Fimm stórmót á fjórum árum er of mikið,“ sagði Krumbholz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×