Handbolti

Aron markahæstur í tapi Veszprem

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson lék með Veszprem í dag í tapinu gegn PSG.
Aron Pálmarsson lék með Veszprem í dag í tapinu gegn PSG. vísir/getty
Aron Pálmarsson kom aftur inn í lið Veszprem eftir fjarveru þegar liðið mætti PSG í stórleik í Meistaradeildinni í handknattleik.

Bæði liðin setja stefnuna hátt á tímabilinu enda með afar sterka leikmenn innanborðs. Leikurinn fór fram á heimavelli PSG og var jafnt með á liðunum í byrjun. Aron kom Veszprem í tveggja marka forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þá tók PSG hins vegar við sér, komst yfir og var 14-12 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt svo baráttan áfram. Um miðjan hálfleikinn komst PSG í 20-15 og eftir það var ekki aftur snúið. Franska liðið hélt forystunni út leikinn og vann að lokum fjögurra marka sigur, 28-24.

Aron Pálmarsson skoraði 5 mörk úr 9 skotum í leiknum í dag og var markahæstur í liði Veszprem. Hjá PSG var Uwe Gensheimer markahæstur með 6 mörk og Nikola Karabatic og Luka Stepanic skoruðu 5.

Parísarliðið situr í efsta sæti A-riðils með 14 stig en Veszprem er í 4.sæti með 8 stig, jafnmörg og Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×