Innlent

Landspítalinn vill orlofsíbúðir stéttarfélaganna fyrir veikt fólk utan af landi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Drífa Snædal segir ótækt að stéttarfélögin þurfi að bæta fyrir síversnandi heilbrigðistþjónustu.
Drífa Snædal segir ótækt að stéttarfélögin þurfi að bæta fyrir síversnandi heilbrigðistþjónustu. vísir/vilhelm
Landspítalinn hefur formlega óskað eftir því við verkalýðsfélög um allt land að fá að nýta orlofsíbúðir félaganna í Reykjavík þegar þörf er á að vista þungaðar konur eða foreldra utan af landi vegna veikinda á meðgöngunni.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, segir ófært að treyst sé á að stéttarfélögin bæti fyrir versnandi heilbrigðisþjónustu fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins.

„Orlofsíbúðirnar hafa verið nýttar í þessum tilgangi og munu að sjálfsögðu verða nýttar í þetta áfram. Það sem hins vegar við viljum vekja athygli á er að það er síaukin krafa á stéttarfélagið að bæta fyrir síversnandi þjónustu fyrir fólk utan af landi,“ segir Drífa. Íbúðirnar séu hugsaðar sem orlofsíbúðir þeirra sem greiði í stéttarfélögin, ekki sem hluti af heilbrigðiskerfinu.

„Það hefur verið dregið úr heilbrigðisþjónustu úti á landi sem þýðir það að fólk þarf að eyða meiri tíma og meiri peningum í það að sækja sér þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Það er ófært að stéttarfélögum verði gert að liðka fyrir versnandi þjónustu, að taka á sig versnandi þjónustu við fólk utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir hún.  

Drífa segir að hið opinbera eigi að sinna skyldum við fólk annars staðar af landinu og ekki treysta á sjóði sem félagsmenn stéttarfélaganna hafi byggt upp í áratugi. Það sé skýr krafa aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins að tryggt verði jafnræði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og sinni skyldum sínum gagnvart veiku fólki og þunguðum konum sem ekki geti sótt þjónustu í heimabyggð.

„Það eru orlofsíbúðir um allt land og það er mjög mikil ásókn í þær. Það er hægt að vera með 100 prósent nýtingu bara af fólki sem vill vera í fríum og orlofi. Þetta er hugsað til að bæta lífsgæði félaga. Félagar greiða í þessa sjóði í gegnum sína kjarasamninga, þetta er hluti af þeirra launum sem fara í þetta, og þannig er þetta hugsað og þannig á að nota þetta,“ segir Drífa Snædal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×