Sport

Aftur voru Ólympíuverðlaun tekin af honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Soslan Tigiev sést hér á pallinum en hann er lengst til hægri.
Soslan Tigiev sést hér á pallinum en hann er lengst til hægri. Vísir/Getty
Glímumaður frá Úsbekistan hefur nú misst verðlaun sín frá Ólympíuleikunum í Peking 2008 en þetta var ekki í fyrsta sinn sem kappinn missir Ólympíuverðlaun mörgum árum eftir að hann vann þau.

Soslan Tigiev er einn af þeim íþróttamönnum sem féllu á lyfjaprófi þegar sýni þeirra frá Ólympíuleikunum í Peking 2008 voru prófuð aftur. Hann lenti líka í því sama þegar sýni hans frá Ólympíuleikunum í London voru endurprófuð. BBC segir frá.

Soslan Tigiev hafði áður misst brons frá Ólympíuleikunum í London 2012 en missti nú líka silfrið sem hann vann á leikunum í Peking 2008. Tigiev missti bronsið sitt 7. nóvember 2012.

Alls voru Ólympíuverðlaun tekin af sex íþróttamönnum eftir að upp komst um ólöglega lyfjanotkun þeirra átta árum eftir að þau fengu þau um hálsinn á leikunum 2008.

Alþjóðaólympíunefndin hefur látið fara á ný yfir tólfhundruð sýni frá Ólympíuleikunum í Peking og London. Þetta er gert þar sem nútímatækni og meiri þekking hefur séð til þess að nú uppgötvast fleiri ólögleg lyf í sýnum íþróttafólksins.

Alls voru níu íþróttamenn dæmdir úr leik fyrir ólöglega lyfjanotkun frá ÓL 2008 en sex þeirra unnu verðlaun. Íþróttamennirnir eru:

Soslan Tigiev, Úsbekistan, vann silfur í glímu

Ekaterina Volkova, Rússlandi,  vann brons í 3000 m hindrunarhlaupi

Olha Korobka, Úkraínu,  vann silfur í kraftlyftingum

Taimuraz Tigiyev, Kasakstan, vann silfur í glímu

Nastassia Novikava, Hvíta-Rússlandi, vann brons í kraftlyftingum

Andrei Rybakou, Hvíta-Rússlandi, vann silfur í kraftlyftingum

Sardar Hasanov, Aserbaísjan, kraftlyftingar

Josephine Nnkiruka Onyia, Spáni, 100 m grindarhlaup

Wilfredo Martinez, Kúbu, langstökk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×