Innlent

Starfsmannaleigum fjölgar mjög ört

Þorgeir Helgason skrifar
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, alþýðusamband íslands. Fréttablaðið/GVA
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, alþýðusamband íslands. Fréttablaðið/GVA
„Okkur óar svolítið við þessari þróun. Það er ekki algilt en meginreglan er sú að þessar starfsmannaleigur, bæði innlendar og erlendar, eru þekktar fyrir að skrapa botninn þegar kemur að kjörum og réttindum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Starfsmannaleigur eru þjónustufyrirtæki sem leigja út starfsmenn gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað og undir verkstjórn notendafyrirtækis.

Árið 2013 var ein starfsmannaleiga starfandi hér á landi með tíu starfsmenn á sínum snærum. Í dag er fjöldi starfsmannaleiga 25 og áætlað er að rúmlega þúsund starfsmenn starfi fyrir þær, en langflestir starfsmannanna eru frá Austur-Evrópu. Þessa þróun má rekja til mikillar uppsveiflu í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Halldór segir flókið að fylgjast með því hvort starfsmannaleigurnar fari eftir lögum. „Það er erfitt fyrir okkur að ná sambandi við starfsfólkið sjálft. Bæði vegna þess að það óttast oft að tjá sig um laun og og starfskjör og vegna þess að það er mjög háð vinnuveitendum sínum,“ segir Halldór.

ASÍ og stéttarfélögin hafa eflt mjög vinnustaðaeftirlit vegna uppkominnar stöðu. Til þess að bregðast við mögulegum kjarabrotum krefjast ASÍ og stéttarfélög þess að fá auknar eftirlitsheimildir með starfsmannaleigum og að Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og ríkisskattstjóri fái úrræði til þess að stöðva starfsemi vegna alvarlegra og ítrekaðra brota.

„Við hjá ASÍ sjáum fyrir að starfsmannaleigum muni fjölga ört og því er nauðsynlegt að við höfum þau úrræði sem við þurfum til þess að takast á við kjarabrot, komi þau upp,“ segir Halldór Grönvold. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×