Handbolti

Fram vann gegn meisturunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lovísa Thompson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu í tapleiknum gegn Fram.
Lovísa Thompson skoraði tvö mörk fyrir Gróttu í tapleiknum gegn Fram.
Fram vann góðan sigur á Íslandsmeisturum Gróttu í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Liðin mættust í undanúrslitum Íslandsmótsins í fyrra þar sem Gróttustelpur höfðu betur og fóru á endanum alla leið og unnu Íslandsbikarinn eftir úrslitaeinvígi gegn Stjörnunni.

Leikurinn í dag var jafn allan tímann og skiptust liðin á að hafa eins marks forystu. Í hálfleik var staðan 10-9 fyrir gestina.

Í síðari hálfleiknum hélt spennan áfram. Fram komst í tveggja marka forystu í fyrsta sinn í stöðunni 16-14 og þann mun náði Grótta ekki að brúa.

Lokatölur urðu 20-19 og heldur Fram því toppsætinu en tapleikurinn var sá fjórði hjá Gróttu í vetur sem er komin í töluverð vandræði í neðri hluta deildarinnar.

Steinunn Björnsdóttir var markahæst heimastúlkna með 7 mörk og Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði 4. Hjá Gróttu skoraði Sunna María Einarsdóttir 7 mörk og Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6.

Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 11 skot í marki Fram og Selma Þóra Jóhannsdóttir 15 skot í marki Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×