Innlent

„Lögreglan er í grafalvarlegri stöðu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Stjórn Félags yfirlögregluþjóna segist hafa miklar áhyggjur af stöðu lögreglunnar á Íslandi. Í ályktun sem send var á Innanríkisráðuneytið í dag segir að lögreglan sé í grafalvarlegri stöðu.

„Lögreglumönnum hefur fækkað mikið og fjármagn er ekki til staðar til að halda úti eðlilegri löggæslu, færri menn á vakt og ekki reynist unnt að mæta forföllum vaktinni, akstur lögreglubifreiða í lágmarki,“ segir í ályktuninni.

Enn fremur segir að mikið álag sé á lögreglumönnum um landið allt, samhliða auknum verkefnum vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna hér á landi. Þá verði ekki útskrifaðir lögreglumenn næstu misserin og muni það auka álagið enn frekar.

Nauðsynlegt hafi reynst að notast við ómenntað afleysingafólk til að brúa bilið þar sem embættin hafi misst faglært fólk úr stéttinni.

„Stjórn FY harmar það áhugaleysi á löggæslumálum sem er uppi í aðdraganda Alþingiskosninga. Umræður um löggæslumál eru nánast engar hjá frambjóðendum og ekki virðist áhuganum hjá fjölmiðlum fyrir að fara á málefninu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×