Handbolti

Grótta baðst afsökunar á harkalegum ummælum þjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Anton
Handknattleiksdeild Gróttu hefur beðist afsökunar á skrifum Karl Erlingssonar, aðstoðarþjálfara í meistaraflokki kvenna hjá félaginu, á samfélagsmiðlum eftir að Grótta tapaði fyrir Haukum, 29-25, á laugardag.

Karl var afar óánægður með bæði störf dómara leiksins, þeirra Matthíasar Leifssonar og Arnar Arnarsonar, sem og eftirlitsdómarans Kristjáns Halldórssonar. Hann líkti dómgæslunni í leiknum við lélegan brandara.

Karl eyddi skrifum sínum skömmu eftir að þau voru birt en mbl.is birti þau á vef sínum í morgun.

„Gríðarleg framför hjá HSÍ eða hitt þó heldur, dómararuglið heldur áfram. Þvílíkt rugl. Eigum við ekkert betra skilið? Látum það vera að þessir fábjánar hafa aldrei spilað handbolta sjálfir. En óþarfi að setja hálf vangefið lið í búning og láta þá dæma?“

„Skrípaleikur í boði Kristjáns Halldórssonar. Hvað á þetta fífl að fá að ganga langt í að eyðileggja íslenskan handbolta?“

Ummælum Karls hefur verið vísað til aganefndar en það kom fram á vef Rúv.

Yfirlýsingu handknattleiksdeildar Gróttu má lesa hér fyrir neðan:

„Stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu harmar þau ummæli sem Karl Erlingsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Gróttu, hafði eftir leik liðsins gegn Haukum á laugardaginn.  Þessi skrif eru sannarlega ekki í anda þess sem félagið starfar eftir og íþróttinni ekki til framdráttar. Stjórnin biður alla hlutaðeigandi innilegrar afsökunar, mun taka á málinu og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×