Körfubolti

Kristófer: Shout-out á Guðna

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Kristófer og Guðni fallast í faðma fyrir leik.
Kristófer og Guðni fallast í faðma fyrir leik. mynd/bára dröfn kristinsdóttir
Kristófer Acox kom eins og stormsveipur inn í íslenska landsliðið í undankeppni EM 2017. Hann fékk ekki leyfi til að fara á EM í fyrra en ætlar að sjálfsögðu að vera með á næsta ári.

„Það er ekkert annað í stöðunni, þetta er geðveikt. Ég er bara orðlaus,“ sagði Kristófer eftir sigurinn á Belgum í dag.

Íslenska liðið var í vandræðum framan af leik og lenti mest 14 stigum undir. En strákarnir gáfust aldrei upp, unnu sig inn í leikinn og lönduðu frábærum sigri.

„Í hálfleik töluðum við um að halda haus. Það var mikil spenna í mönnum til að byrja með en um leið og við fórum að spila okkur bolta sáum við að við erum jafn góðir ef ekki betri en þetta lið,“ sagði Kristófer. En hvernig hefur það verið fyrir hann að koma inn í landsliðið?

„Það hefur verið mjög gott. Ég fékk smá nasaþef af þessu á Smáþjóðaleikunum en það er geðveikt að spila svona alvöru leiki í fullri höll.“

Frægt var þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði Kristófer á ensku fyrir leikinn gegn Sviss. Forsetinn baðst síðar afsökunar á því og fyrir leikinn í dag féllust þeir í faðma. En hvað fór þeim á milli?

„Eitthvað gott, þetta var allt í góðu. Þetta er toppmaður. Shout-out á Guðna,“ sagði Kristófer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×