Viðskipti innlent

Skilaði íslenskum fjárfestum miklum arði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Friðrik Steinn Kristjánsson stofnaði Invent Farma árið 2004, en hefur verið í lyfjageiranum í þrjá áratugi og stofnaði Omega Farma árið 1990.
Friðrik Steinn Kristjánsson stofnaði Invent Farma árið 2004, en hefur verið í lyfjageiranum í þrjá áratugi og stofnaði Omega Farma árið 1990. Vísir/Ernir
Það hefur orðið mikil verðmætaaukning á þessum 11 árum og fjárfestar eru mjög ánægðir með söluna,“ segir Friðrik Steinn Kristjánsson, stofnandi lyfjafyrirtækisins Invent Farma.

Í lok ágústmánaðar var gengið frá kaupum alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Apax Partners á Invent Farma og var hlutafé fyrirtækisins metið á um 215 milljónir evra, eða 30 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Stærðargráða fyrirtækisins er svipuð og Símans og aðeins stærri en N1.

Friðrik stofnaði Invent Farma árið 2004. Stærstu hluthafar fyrirtækisins við sölu voru Framtakssjóður Íslands sem átti 38 prósenta hlut, Silfurberg, í eigu Friðriks, sem átti 27 prósent og fjárfestingarsjóðurinn Horn II sem átti ásamt meðfjárfestum 16,8 prósenta hlut.

Á tæpum þremur árum frá því að Framtakssjóður og Horn komu inn haustið 2013 hefur orðið gríðarleg verðmætaaukning. Friðrik segir það skýrast af fjórum þáttum. „Í fyrsta lagi bauðst okkur árið 2014 að kaupa á mjög hagkvæmu verði allt húsnæði og land sem áður var leigt. Þar með spöruðust há leigugjöld. Í öðru lagi voru lán sem tekin voru upphaflega hjá íslenskum banka greidd upp að fullu en samhliða var tekið nýtt lán á Spáni á hagstæðari kjörum,“ segir Friðrik. „Í þriðja lagi fór Qualigen sem við stofnuðum árið 2007 að skila mjög góðri afkomu. Í fjórða lagi fór efnahagslíf á Spáni batnandi á síðustu árum og verðmat lyfjafyrirtækja almennt hækkandi.“

Það má því segja að Invent Farma sé dæmi um íslenska fjárfestingu, sem farið var í á útrásartímabili íslenskra fjárfesta og stóð af sér efnahagshrunið árið 2008 og hefur skilað íslenskum fjárfestum góðri arðsemi.

26 ár í lyfjaframleiðslu

Friðrik Steinn hefur alla tíð starfað í lyfjageiranum. Hann útskrifaðist sem lyfjafræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1985 og stofnaði árið 1990 lyfjaframleiðslufyrirtækið Omega Farma og varð framkvæmdastjóri félagsins. Hann leiddi það allt til ársins 2002 þegar það sameinaðist Delta sem seinna varð að Actavis.

Mikil vaxtartækifæri á Spáni

„Eftir að við seldum Omega Farma árið 2002 fór ég að leita nýrra tækifæra í lyfjaiðnaði, skoðaði lyfjafyrirtæki í Asíu og Evrópu. Á þeim tíma hefði ég ekki mátt stofna nýtt lyfjafyrirtæki á Íslandi vegna samninga við kaupendur Omega Farma. Ég hafði þó sérstakan augastað á Spáni þar sem samheitalyfjanotkun var lítil og bara spurning um tíma þar til þessi markaður stækkaði. Til greina kom að byggja lyfjaverksmiðju frá grunni í Murcia með stuðningi héraðsstjórnarinnar þar sem hafði áhuga á að auka fjölbreytni atvinnulífsins, en ég féll frá þeim áformum. Árið 2004 hafði ég heyrt af tveimur lyfjaverksmiðjum í eigu risafyrirtækisins Procter & Gamble. Þeir vildu selja framleiðsluhlutann frá sér og það endaði með kaupum árið 2005,“ segir Friðrik, en Invent Farma var stofnað árið 2004 í kringum kaupin.



Friðrik segir Invent Farma hafa staðið af sér hrunið.Vísir/Ernir
12,9 milljarða velta

Á næsta áratug varð gríðarleg verðmætaaukning hjá Invent Farma. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var kaupverðmæti verksmiðjanna árið 2005 um sjö til átta milljarðar króna, (á þáverandi gengi) samanborið við þrjátíu milljarða króna í dag. Velta verksmiðjanna nam 4,5 milljörðum króna árið 2005 en nú nemur árleg velta Invent Farma 100 milljónum evra, eða 12,9 milljörðum króna.

„Það voru tæplega fjögur hundruð starfsmenn þegar við komum að þessu og þegar við seldum voru þar tæplega fimm hundruð starfsmenn. Það varð því starfsmannafjölgun, en mest varð verðmætaaukningin, því það gekk vel eftir að við fengum lán fyrir kaupunum,“ segir Friðrik. 

Hann segir mestu breytinguna á fyrirtækinu hafa orðið við stofnun Qualigen. „Þegar ég kem að þessu eru tvær lyfjaverksmiðjur, ein framleiðir virk lyfjaefni með áherslu á innöndunarlyf, og önnur sem framleiðir tilbúin lyf. Þegar nýir fjárfestar komu inn árið 2005 þá stofnuðum við markaðsfyrirtækið Qualigen sem selur lyf á Spáni undir eigin vörumerki. Það er mjög kostnaðarsamt að markaðssetja eigin vörur og það var tap á Qualigen fyrstu sex til sjö árin, en eftir árið 2012 fór að ganga mjög vel.“

Átti að gera stór kaup

Invent Farma var stofnað þegar útrás íslenskra fjárfesta stóð sem hæst. Friðrik segir að andrúmsloftið í íslensku viðskiptalífi hafi verið þannig að helst hafi átti að gera stór kaup. „Sem dæmi ná nefna að í byrjun fann ég áhugavert fyrirtæki sem átti að selja fyrir tiltölulega lágt verð. Þegar ég leitaði til íslensku bankanna um fjármögnun á kaupunum var mér tekið vel en var sagt að því miður gæti bankinn ekki tekið þátt í svona litlum kaupum, ég þyrfti að finna eitthvað stærra. Kaupin á lyfjaverksmiðjum Procter voru nægilega stór kaup til að bankinn hefði áhuga á að taka þátt í fjármögnuninni. Ég ætla ekki að gera lítið úr aðkomu bankanna. Þó að margar fjárfestingar hafi misheppnast, þá er það þannig að ef vel gengur verður mikil verðmætaaukning í skuldsettum kaupum,“ segir hann.

Hrunið snerti Invent Farma

Friðrik segir að eins og flest önnur fyrirtæki hafi Invent Farma fundið fyrir áhrifum hrunsins. „Í hruninu vorum við í miðjum kaupum á lyfjafyrirtæki. Á þeim tíma vorum við í leiguhúsnæði og vildum kaupa okkur eigin framleiðsludeild og flytja framleiðsluna þangað. Við höfðum fengið loforð um fyrirgreiðslu hjá íslenskum banka og vorum búin að borga inn á kaupin, en eftir hrun gat bankinn ekki staðið við framtíðarfjármögnun á kaupunum. Þá gengu kaupin til baka og við töpuðum fyrstu greiðslunni. Á sama tíma ákváðu yfirvöld á Spáni að skera niður í lyfjakostnaði þannig að við lentum í tekjusamdrætti. Þannig að hrunið snerti okkur. En við komumst út úr því og gátum staðið við allar okkar skuldbindingar,“ segir Friðrik.

Efnahagskreppan árið 2008 hafði gríðarleg áhrif á Spáni þar sem atvinnuleysi fór fljótt upp í 25 prósent og draga þurfti verulega úr ríkisútgjöldum. Friðrik segir að það hve samheitalyfjamarkaðurinn á Spáni var lítill hafi hjálpað til við að takast á við áhrif efnahagskreppunnar. „Ein ástæðan fyrir því að ég vel upphaflega að fara til Spánar er að mikið tækifæri var til vaxtar á markaðnum þar. Ef við hefðum verið á öðrum markaði þar sem samheitalyfin hefðu verið orðin mjög stór þá hefði kannski orðið meiri samdráttur í efnahagskreppunni. Þarna var ríkinu til góðs að nota samheitalyf, þannig að það var áfram töluverður vöxtur í notkun samheitalyfja.“

Friðrik segir að mikið atvinnuleysi á Spáni hafi ekki háð fyrirtækinu. „Stundum er það þannig að þegar atvinnuleysi er mikið þá er minni hreyfing á fólki og fólk hættir ekki. Þegar atvinna er næg getur komið meiri óstöðugleiki í rekstur fyrirtækja.“

Tækifæri fyrir lífeyrissjóði

Breytingar voru innan Invent Farma árið 2013 þegar ákveðið var að leita fjárfestinga frá íslenskum sjóðum. „Hópur hluthafa var áhugasamur um að selja og byrjaði að leita að kaupendum árið 2011, það leiddi ekki til neinnar sölu og þá var ákveðið að leita til sjóðanna á Íslandi. Árið 2013 voru komin á gjaldeyrishöft á Íslandi og fá tækifæri fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta erlendis og þannig dreifa áhættunni. Þetta voru kaup á íslensku fyrirtæki með veltu í erlendum gjaldmiðli,“ segir Friðrik.

„Það var mikill akkur að fá fagfjárfesta eins og Framtakssjóð Íslands og Horn II í hluthafahópinn. Samstarfið við þá einstaklinga sem stjórna þessum sjóðum hefur gengið mjög vel. Kristinn Pálmason frá FSÍ og Hermann Þórisson frá Horni II, sem sátu í stjórn Invent Farma, unnu með mér í gegnum allt söluferlið sem tók rúmt ár. Reynsla þeirra og fjármálaþekking nýttist afskaplega vel í söluferlinu.“ 

Park Guelll eftir Gaudí í Barselóna.
Mjög gaman í Barselóna

Ísland og Spánn hafa lengi átt í góðu viðskiptasambandi en Spánn er einn helsti innflytjandi íslensks saltfisks. Friðrik hefur sérstakan áhuga á spænskri menningu og tungu og er meðal annars ræðismaður Spánar á Íslandi og formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins. Hann segir að lítið sé um viðskipti milli Spánverja og Íslendinga sem tengist ekki sjávarútvegi. Hann hafi hins vegar séð tækifæri í lyfjaiðnaðinum á Spáni þar sem samheitalyfjanotkun var lítil og bara spurning um tíma þar til þessi markaður stækkaði.

„Lyfjaiðnaður á Spáni er nær eingöngu í Madríd og í Barselóna. Ástæðan fyrir því á rætur sínar að rekja til vefnaðariðnaðar. Það var mikill vefnaðariðnaður í Barselóna og í tengslum við hann þurfti litariðnaður að þróast. Litariðnaðurinn er kemískur iðnaður, þegar þú ert búinn að ná tökum á því að búa til litarefni með efnafræðilegum aðgerðum, þá er stutt yfir í lyfjaiðnað. Það sama gerðist í Sviss, þeir höfðu ákveðið forskot þegar kom að því að búa til lyf.“

Friðrik segir töluvert ólíkt viðskiptaumhverfi ríkja á Spáni og á Íslandi. En engu að síður sé þar mjög áhugavert menningarumhverfi. Spánn er eins og fjöldi landa samankominn og það er mjög gaman að vera í Barselóna.“

Áfram hluthafi í Invent Farma

Friðrik verður áfram hluthafi í Invent Farma eftir yfirtöku Apax en mun eiga mun minni hlut en áður. Hann segist ekki sjá fram á að stofna nýtt fyrirtæki í lyfjabransanum. „Þetta er bara orðið gott,“ segir hann og brosir. „Ég kem sem fjárfestir að einhverjum fyrirtækjum í lyfjabransanum en ekki í þessum mæli. Svo eigum við Ingibjörg kona mín, í gegnum Silfurberg, Lyfjaver, apótek sem sérhæfir sig í lyfjaskömmtun,“ segir hann.

Friðrik er því ekki alveg sestur í helgan stein en segist hlakka til að sinna áhugamálum sínum í auknum mæli, spila á píanó, lesa góðar bækur, sinna fjölskyldunni og halda áfram að gera áhugaverða hluti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×