Handbolti

Dagur: Þetta var mjög flott

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Þýskalands.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Þýskalands. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson er búinn að koma Evrópumeistaraliði Þýskalands í undaúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó en Þjóðverjar unnu tólf marka sigur á Katar, 34-22, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld.

Það var nóg að gera hjá Degi eftir leikinn enda kepptust þýsku fjölmiðlarnir við að ná viðtali við íslenska þjálfarann. Eftir allar þýsku spurningarnar gaf hann sér tíma til að svara nokkrum á íslensku líka.

„Þetta var mjög flott. Við náðum frábærum varnarleik og góðri markvörslu," sagði Dagur og hann nýtti sér það vel að lið Katar vill ekki hraðan leik.

„Við vissum að þeir myndu ekki keyra upp hraðann. Við leyfðum okkur því tvær skiptingar og vorum því með trukkana klára í varnarleikinn og svo voru ungu spræku strákarnir í sókninni sem þeir réðu illa við," sagði Dagur.

„Í seinni hálfleik náðum við að keyra svolítið á þá og svo gáfust þeir upp. Það verður bara að segjast eins og er að þeir gáfust upp eftir tíu mínútur í seinni hálfleik," sagði Dagur.

„Það var óvænt að þetta yrði svona stórt," sagði Dagur. Þýska liðið mætir Frökkum í undanúrslitum en Frakkarnir hafa unnið gull á síðustu tveimur Ólympíuleikum.

Dagur getur verið ánægður með sína menn en þýska liðið hefur unnið alla leiki sína fyrir utan þann á móti heimamönnum í Brasilíu. Þýska liðið svaraði því með tveimur sigrum og tryggði sér sigur í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×