Skoðun

Sendir heim með heilaskaða

Dís Gylfadóttir skrifar
Á undanförnum mánuðum hefur félagið Hugarfar unnið hörðum höndum að því að kynna stöðu fólks með heilaskaða fyrir almenningi og stjórnvöldum. Haldin var ráðstefna um málefnið og umfjöllunin undanfarnar vikur hefur borið mikinn árangur. Fjöldi fólks hefur haft samband við félagið í leit að áður óþekktum stuðningi, ráðgjöf og fræðslu, en úrræðaleysið fyrir þennan hóp hefur verið algjört. Margir eru vangreindir eftir slys og fjöldi ungs fólks sem hlotið hefur heilaskaða er á örorku og verður það áfram þar sem viðeigandi aðstoð er ekki í boði.

Um 500 manns hljóta heilaskaða af völdum höfuðáverka á Íslandi á hverju ári. Heilaskaði hefur í för með sér duldar afleiðingar sem sjást ekki utan á einstaklingnum. Framtaksleysi, minnisskerðing, þreyta og per­sónuleikabreytingar hafa mest áhrif á daglegt líf og skortur á innsæi gerir það að verkum að fólk skilur ekki af hverju það mætir hindrunum alls staðar. Skortur á fræðslu og almenn vanþekking á einkennum heilaskaða gerir það svo að verkum að fólk mætir skilningsleysi, lendir í árekstrum við fólk og einangrast félagslega.

Vísað heim án aðstoðar

Fjölmörg dæmi, gömul og ný, eru um að fólk leiti á bráðamóttöku vegna höfuðáverka og sé útskrifað heim án eftirfylgdar eða upplýsinga um hvert skuli leita ef einkenni hverfa ekki.

Aðstandendur fara heim með breyttan einstakling og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Börn fá hvorki fræðslu né aðstoð við að takast á við breyttar aðstæður og skilja ekki af hverju mamma eða pabbi er öðruvísi en áður. Álag á hjónabönd og fjölskyldur er gríðarlegt og ekki lifa öll sambönd af. Þunglyndi og kvíði eru algeng afleiðing heilaskaða og sjálfsvígstíðni sömuleiðis há. Það er kannski ekki að furða þegar fótunum er kippt undan fólki á öllum sviðum lífsins og enga hjálp að fá. Einstaklingar verða fyrir fordómum og eru taldir latir, vitlausir eða skrítnir. Því miður enda margir á bráðamóttöku geðdeildar því alls staðar kemur þessi hópur að lokuðum dyrum. Heilaskaði þarfnast sérhæfðs úrræðis og passar ekki inn í úrræði sem sniðin eru að öðrum hópum. Neyðin er mikil og þörfin fyrir samastað sömuleiðis.

Þörf á samastað

Á Grensásdeild er starfandi heilaskaðateymi sem veitir endurhæfingu fyrir fámennan hóp eða um tíu manns á ári. Það eru einungis um tíu prósent af þeim fjölda sem þarf á endurhæfingu að halda ár hvert. Svipaður fjöldi kemst að á Reykjalundi en þar er biðlistinn nú þegar langur og líkur á að hann lengist nú enn frekar. Grensás og Reykjalundur bjóða upp á endurhæfingu sem hefur upphaf og endi. Eftir það tekur ekkert við. Engin langtímaendurhæfing eða eftirfylgd er í boði hér á landi líkt og þekkist erlendis. Heilaskaði er varanleg fötlun, en með viðeigandi aðstoð ná margir að fóta sig á ný og verða aftur virkir þjóðfélagsþegnar. Það er ekki einungis verðmætt fyrir einstaklinginn sjálfan og aðstandendur hans, heldur samfélagið í heild.

Félagið Hugarfar vinnur að opnun endurhæfingar- og fræðslumiðstöðvarinnar Höfuðhúss og biðlar nú til almennings og stjórnvalda um aðstoð. Við getum öll lent í því að fá heilaskaða – fyrirvaralaust – við sjálf eða ástvinir okkar. Höfuðhúsið getur og mun bjarga mannslífum.




Skoðun

Sjá meira


×