Körfubolti

Íslensku strákarnir í undanúrslitin á EM eftir stórsigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Mynd/FIBAEurope
Íslenska tuttugu ára landsliðið í körfubolta er komið í undanúrslit í B-deild Evrópukeppni 20 ára liða eftir að hafa farið á kostum á móti Georgíu í átta liða úrslitunum í kvöld.

Íslensku strákarnir voru frábærir og unnu 40 stiga stórsigur á Georgíumönnum, 94-54, en leikmenn Georgíu áttu engin svör á móti léttleikandi íslensku liðið þar sem margir leikmenn voru að spila vel.

Íslenska liðið tryggði sér þar með leik á móti heimamönnum í Grikklandi í undanúrslitum keppninnar annað kvöld. Gríska liðið hefur unnið alla sex leiki sína á mótinu til þessa og þykir líklegt til að vinna gullið.

Það var magnað að sjá til íslensku strákanna en þeir voru nánast allir í stuði. Alls skoraði íslenska liðið þrettán þriggja stiga körfur í leiknum og sjö leikmenn liðsins settu niður þrist.

Kristinn Pálsson og Hjálmar Stefánsson voru stigahæstir með 15 stig hvor, Jón Axel Guðmundsson var með 13 stig og þeir Pétur Rúnar Birgisson og Kári Jónsson skoruðu báðir 12 stig. Kári var einnig með 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Breki Gylfason (10 stig) var síðan sjötti leikmaðurinn sem skoraði tíu stig eða meira.

Finnur Freyr Stefánsson var greinilega með íslensku strákanna rétt stillta fyrir leikinn í kvöld því þeir gerðu nánast út um leikinn með því að komast í 12-3 og 19-5 í upphafi leiks.

Íslenska liðið gaf tóninn þarna strax í byrjun og vann á endanum fyrsta leikhlutann 29-5. Ísland var síðan 21 stigi yfir í hálfleik, 45-24, og það munaði síðan orðið 29 stigum eftir þriðja leikhlutann en Ísland var þá 65-36 yfir.

Íslenska liðið bætti við forystuna í fjórða leikhlutanum og tryggði sér stórglæsilegan sigur. Liðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð í keppninni eftir að hafa tapað fyrsta leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×