Innlent

Svínabændur fá minna á meðan verðið hækkar í verslunum

Sveinn Arnarsson skrifar
Erfitt er að reka svínabú í dag að mati ræktenda
Erfitt er að reka svínabú í dag að mati ræktenda
Á meðan verð til svínabænda hefur lækkað um tíu prósent hefur verð úti í búð hækkað um 7 prósent. Svínabændur eru ósáttir við stöðuna og segja þetta grafa undan svínakjötsframleiðslu í landinu.

Svínabændur eru því skildir eftir í verðhækkunum á markaði. Hækkun verðlagsins kemur því annars staðar frá en í hækkandi afurðaverði til bænda. „Þetta styður við mjög margt sem við höfum sagt áður um verðlækkanir vegna innflutnings eða breytinga á tollum. Þær skila sér ekki til neytenda. Innflutningur á svínakjöti hefur aukist, verði er haldið niðri til bænda en aðrir hafa á sama tíma notið góðs af hækkuninni. Það er engin sanngirni í því,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður bændasamtakanna.

Björgvin Jón Bjarnason, formaður félags svínabænda
Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur hlutur innflutts svínakjöts stækkað nokkuð samanborið við sama tíma í fyrra. Svínabændur eru því uggandi yfir stöðunni og segja það mjög erfitt að reka svínabú á Íslandi í dag. „Þetta er ekki einfalt líf eins og staðan er núna. Við finnum fyrir þessari breytingu. Það er minna eftir og á sama tíma erum við með mjög stífa fjárfestingarkröfu frá hinu opinbera um að breyta svínabúunum og það er enginn afsláttur gefinn af því,“ segir Björgvin Jón Bjarnason, formaður Félags svínabænda. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×