Innlent

Vikið úr MK fyrir myndir og hnífaburð

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Menntaskólinn í Kópavogi.
Menntaskólinn í Kópavogi. vísir/heiða
Umboðsmaður Alþingis hefur til skoðunar mál sautján ára drengs sem vikið var fyrirvaralaust úr Menntaskólanum í Kópavogi á síðasta ári fyrir óviðeigandi myndbirtingar á netinu af skólasystur sinni og fyrir hnífaburð í skólanum.

Öðrum dreng á svipuðum aldri var einnig vísað úr skólanum á sama tíma í fyrra fyrir myndbirtingar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða myndskeið og myndir sem birtar voru á lokuðum Facebook-hóp drengja í skólanum, MK bræður.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu bárust snemma á síðasta ári tvær kærur þar sem kærðar voru ákvarðanir skólameistara Menntaskólans í Kópavogi um að vísa drengjunum fyrirvaralaust úr skólanum. Gerðar voru þær kröfur að ákvarðanir skólameistarans yrðu felldar úr gildi.

Ráðuneytið staðfesti með úrskurði í desember síðastliðnum rétt skólameistarans til að vísa drengjunum úr skólanum.

Lögfræðingur foreldra annars drengsins kvartaði í kjölfarið til Umboðsmanns Alþingis sem hefur málið nú til skoðunar. Heimildir Fréttablaðsins herma að þar sé meðal annars til skoðunar hvort ráðuneytið hafi fylgt eftir lagaskyldu sinni við að tryggja að barn fái skólavist í framhaldsskóla. Einnig er verið að kanna hvort gætt hafi verið meðalhófs þegar ákvörðun um brottrekstur var tekin. Drengurinn fékk þó inngöngu í annan menntaskóla síðasta haust eða nokkrum mánuðum eftir atvikin.

Mál drengjanna voru kærð til lögreglu og send á ákærusvið en ekki fengust upplýsingar frá embættinu um hvort málin hafi verið felld niður eða ekki. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, sagðist ekki geta tjáð sig um mál einstakra nemenda. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×