Innlent

Með haglabyssu við Kringluna og á Grensásvegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Til mannsins sást með haglabyssu við Kringluna.
Til mannsins sást með haglabyssu við Kringluna. Vísir/GVA
Fyrr í dag var lögreglumönnum í tveimur ökutækjum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu veitt heimild til að grípa til vopna. Var það gert í kjölfar tilkynningar um mann vopnaðan afsagaðri haglabyssu en til hans sást á bifreiðastæði við Kringluna.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglunni en skömmu síðar barst lögreglunni tilkynning um mann með haglabyssu á Grensásvegi. Var hann sagður hafi skotið úr henni á rúðu í húsi við götuna og sömuleiðis ökutæki sem þar var.

„Lögreglan hóf þegar leit að manninum eftir að fyrri tilkynningin barst og hafði við að styðjast bæði lýsingu á manninum og bíl sem hann var á. Sérsveit ríkislögreglustjóra var strax kölluð til, en lögreglumenn frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru henni til aðstoðar.

Bíll mannsins fannst svo nokkru síðar í öðru hverfi borgarinnar og maðurinn sömuleiðis. Sérsveitin handtók manninn og þrjá til viðbótar, auk þess sem haglabyssa fannst í húsi steinsnar frá bíl mannsins. Við frumrannsókn er ekkert sem bendir til að hleypt hafi verið af byssunni á fyrrnefndum stöðum, en rúðubrotið á Grensásvegi er rakið til annars. Fjórmenningarnir, sem nú eru í haldi, hafi allir áður komið við sögu hjá lögreglu,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×