Innlent

Skaða­bóta­máli gegn Kaup­þings­mönnum vísað frá héraðs­dómi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Héraðsdómur Vesturlands vísaði fyrir helgi máli Samtaka sparifjáreigenda gegn forsvarsmönnum Kaupþings frá dómi. Það var mat dómsins að málið hefði ekki verið háð fyrir réttum dómi.

Samtökin stefndu Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings Lúxembourg, Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings og Ólafi Ólafssyni, einum stærsta hluthafa hins fallna banka. Að auki var Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi bankastjóra bankans, stefnt.

Stefna samtakanna byggir á þeim grundvelli að Kaupþingsmenn séu skaðabótaskyldir vegna þeirrar markaðsmisnotkunar sem þeir hafa verið dæmdir fyrir. Samtökin fara fram á 902 milljónir í skaðabætur.

Stefndu byggðu frávísunarkröfu sína á því að málið hefði verið háð í röngu varnarþingi. Enginn þeirra eigi lögheimili í þinghá Héraðsdóms Vesturlands. Þeir hefðu dvalarstað í fangelsinu að Kvíjabryggju en ekki fasta búsetu. Einnig var byggt á því að stefnan hefði verið birt röngum aðila en hún var birt fangaverði. Sá gæti ekki haft fasta búsetu í fangelsinu og því ekki haldið heimili með stefndu. Dómari málsins taldi ekki að dvöl í fangelsinu teldist ígildi fastrar búsetu.

Í lögum um meðferð einkamála segir að sækja megi mann, búsettan erlendis, í þeirri þinghá sem hann er staddur við birtingu stefnu ef mál hans varðar fjárskyldu við mann búsettan hér á landi eða félag, stofnun eða samtök með varnarþing hér. Samtök sparifjáreigenda byggðu á þeim grundvelli fyrir dómi. Ekki var fallist á þá málsástæðu þar sem stefnan var eigi birt stefndu.

Úrskurð héraðsdóms má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×