Innlent

Frosta hent öfugum og blásaklausum úr hópi Þjóðfylkingarinnar

Jakob Bjarnar skrifar
Frosti tekur sig vel út við merki Þjóðfylkingarinnar, en honum finnst hann grátt leikinn af félagsskapnum.
Frosti tekur sig vel út við merki Þjóðfylkingarinnar, en honum finnst hann grátt leikinn af félagsskapnum.
Frosti Logason útvarpsmaður lætur sér fátt fyrir brjósti brenna en þó er ekki laust við að það megi greina sárindi í orðum hans þegar hann setur eftirfarandi tilkynningu inn á hópa á Facebook sem nefnist Stjórnmálaspjallið:

„Þar sem ég hef verið útilokaður frá facebook grúbbu Þjóðfylkingarinnar (án þess að hafa nokkurn tíma tjáð mig þar inni eða gerst brotlegur á nokkurn hátt) þá auglýsi ég hér á þessu spjalli eftir einhverjum forsprakka flokksins í viðtal í Harmageddon.“

Frosti hefur vissulega fjallað um Þjóðfylkinguna í útvarpsþætti sínum Harmageddon á X-inu, og ljóst er að stuðningsmönnum flokksins líkar ekki sá tónn.

Stofnfundur Þjóðfylkingarinnar var haldinn á Catalinu í Kópavogi á dögunum og þar var Þórarinn Þórarinsson blaðamaður, undir fölsku flaggi.
Frosti var til að mynda nýverið með blaðamanninn Þórarinn Þórarinsson í viðtali en Þórarinn hafði smyglað sér inná stofnfund Þjóðfylkingarinnar, með Trump-derhúfu og Útvarps Sögu-bol, og lýsti hann fjálglega, og ef til vill af lítilli virðingu, því sem fyrir augu bar.

Frosti vill skoða málin nánar og hann heldur áfram í tilkynningu sinni:

„Örvar Harðarson segist ekki vera í bænum og formaður flokksins Helgi Helgason segist ekki hafa áhuga því hann telur sig vita hvernig það muni fara. Hvað sem það nú þýðir?

Ég neita að trúa því að fólk sem hefur metnað til að verða lýðræðislega kjörnir fulltrúar og vilja til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt hafi síðan ekki dug til þess að ræða hugsjónir sínar og stefnumál við almenning í gegnum fjölmiðla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×