Innlent

Fasteignagjöld hækkað um allt að fjórðung

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fasteignagjöld hækkuðu mest á Siglufirði, eða um 25 prósent.
Fasteignagjöld hækkuðu mest á Siglufirði, eða um 25 prósent. Vísir/Stefán
Fasteignagjöld eru hæst í Borgarnesi, og lægst í Vopnafirði. Fasteignamat húss og lóðar er hæst í Reykjavík í Suður-Þingholtum, það er hins vegar lægst á Patreksfirði. Þetta kemur fram í samanburði fasteignagjalda sem Þjóðskrá Íslands tók saman fyrir Byggðastofnun.

Fasteignamat húss og lóðar, ef miðað er við einbýlishús sem er 161,1 fermetri að grunnfleti og lóðarstærð er 808 fermetrar, er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu það er. Fasteignamat húss og lóðar á höfuðborgarsvæðinu er að meðaltali 43,4 milljónir og hefur hækkað um rúm átta prósent frá árinu áður.

Utan höfuðborgarsvæðisins er matið hæst á Akureyri, 35,4 milljónir, samanborið við 33,6 milljónir árið áður. Lægsta heildarmat er á Patreksfirði þar sem það er 11,7 milljónir, en matið á Vopnafirði er 12 milljónir.

Fasteignamat hefur hækkað mest milli ára í Suður-Þingholtunum, um 11,1 prósent, það lækkar mest í Grindavík, eða um 5,1 prósent.

Fasteignagjöld eru hæst í Borgarnesi, þar sem þau eru 351 þúsund. Lægstu gjöld eru 180 þúsund á Vopnafirði eins og árið áður. Fasteignagjöld hækkuðu mest á Siglufirði, eða um 25 prósent. Rétt er að taka fram að sveitarfélög veita mismunandi þjónustu til dæmis hvað varðar sorpurðun og -förgun og er sums staðar rukkað fyrir þjónustu sem er innifalin í gjöldum annars staðar.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×