Innlent

Íslendingar ekki ferðast jafn mikið til útlanda síðan 2007

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Íslendingar hafa verið á faraldsfæti.
Íslendingar hafa verið á faraldsfæti. Vísir/GVA
Um 67 þúsund Íslendingar fóru utan í júní síðastliðnum. Hafa brottfarir Íslendinga aldrei mælst fleiri í einum mánuði frá því að talningar Ferðamálastofu hófust en fyrra met var 54.800 í júní árið 2007.

Þetta kemur fram í tölum frá Ferðamálastofu á brottförum frá Keflavíkurflugvelli.

Ef til vill kemur þetta ekki á óvart enda kepptust Íslendingar við að ferðast til Frakklands til þess að fylgjast með afrekum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumótinu í Frakklandi sem nú stendur yfir.

Ferðamálastofa slær þó þann varnagla að hugsanlega er óvenju algengt að fleiri en eina brottför sé að ræða hjá sömu einstaklingum. Slíkt sé þó ekki hægt að segja fyrir um með neinni vissu.

Ferðamenn á Íslandi.vísir/ernir
700 þúsund erlendir ferðamenn til landsins það sem af er ári

Um 186 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní síðastliðnum eða nærri 50 þúsund fleiri en í júní í fyrra.

Erlendum ferðamönnum heldur því áfram að fjölga. Aukningin nemur 36,8 prósentum á milli ára í júní og frá áramótum nemur hún 35,8 prósentum. Nú hafa tæplega 700 þúsund erlendir ferðamenn komið frá áramótum, 183 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra.

Rúmur helmingur ferðamanna í nýliðnum júní voru af fjórum þjóðernum. Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir eða tæp 30 prósent af heildarfjölda. Næstir komu Þjóðverjar (9,3 prósent), þar á eftir fylgdu Bretar (8,7 prósent og Kanadamenn (7,0 prósent).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×