Innlent

Hjartaáföllum fjölgaði hjá körlum á skattlausa árinu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hjartaáföllum fjölgaði hjá íslenskum miðaldra karlmönnum á skattlausa árinu árið 1987. Þetta sýna niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar sem birt var á dögunum.

Árið 1987 var skattkerfinu breytt á Íslandi en tekjuskattur var afnuminn af tekjum fólks það ár. Margir unnu því meira en fyrri ár til að græða sem mest enda var næga vinnu að fá. Íslenskir vísindamenn hafa síðastliðin sex ár rannsakað hvort að líkur á hjartaáföllum hafi aukist á þessu skattlausa ári. Vísindamennirnir fjórir þau Þórhildur Ólafsdóttir, doktorsnemi við hagfræðideild Háskóla Íslands, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við hagfræðideildina, Birgir Hrafnkelsson, prófessor við raunvísindadeild skólans og Guðmundur Þorgeirsson, prófessor við læknadeild skólans birtu á dögunum niðurstöður sínar í Journal of Health Economics einu virtasta vísindatímariti heims á sviði heilsuhagfræði.

„Rannsóknir erlendis frá, frá Bandaríkjunum og Evrópu, svona frá síðustu aldamótum sérstaklega benda til þess að í uppsveiflum að þá aukist bæði dánartíðni vegna hjartaáfalla og mögulega líkur á hjartaáföllum,“ segir Þórhildur Ólafsdóttir doktorsnemi við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Þórhildur segir skattlausa árið í raun hafa verið náttúrulega tilraun um aukningu á vinnuframboði og því einstakt tækifæri til að rannsaka þetta. „Við erum að skoða þá upplýsingar úr skattskrám og hjartaáfallaskrám yfir ellefu ára tímabil. Þar sem við erum með sem sagt fimm ár fyrir skattlausa árið og svo fimm ár á eftir,“ segir Þórhildur.

Niðurstöðurnar sýna að hjartaáföllum fjölgaði hjá íslenskum körlum á aldrinum 45-64 ára á skattlausa árinu og árinu þar á eftir. Í ljós kom að 24% aukning, frá meðaltalslíkum á hjartaáföllum yfir rannsóknartímabilið, varð árið 1987. Þá varð aukningin 15,6% árið 1988.

„Við sjáum að sérstaklega þeir sem voru að auka við sig mest, það er að segja þeir sem að voru sjálfstætt starfandi á þessu tímabili það er að segja karlar, að þeir voru í auknum líkum á sem sagt á því að fá hjartaáfall,“ segir Þórhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×