Lífið

Læknum hefur fjölgað úr þremur í tíu í Grafarvogi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Við höfum afrekað heilmikið en erum í miðri ánni,“ segir Ófeigur Tryggvi og segir frekari breytingar bíða þar til eftir sumarfrí.
"Við höfum afrekað heilmikið en erum í miðri ánni,“ segir Ófeigur Tryggvi og segir frekari breytingar bíða þar til eftir sumarfrí. Vísir/Hanna
Við erum að byggja upp öfluga teymisvinnu lækna og hjúkrunarfræðinga hér á stöðinni. Líka samstarf við heimahjúkrun og að skoða læknisþjónustu við fatlaða og Landspítalann, þar með talda bráðamóttökuna til að létta á henni,“ segir Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, sem er bæði svæðisstjóri og fagstjóri lækninga á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi.

Teymin eru fjögur, tveir læknar, tveir hjúkrunarfræðingar og ljósmóðir í hverju – reyndar með mismunandi starfshlutfall. Teymin sjá um ákveðinn fjölda íbúa Grafarvogs, hvert og eitt 2-3.000 manns, að sögn Ófeigs Tryggva.

„Fjöldi fólks í hverfinu hefur ekki haft heimilislækni síðustu ár en nú eru 11.000 komnir á skrá hjá teymum heilsugæslunnar og fólk fær ekki bara lækni heldur líka hjúkrunarfræðing og hefur því betra aðgengi að þjónustunni en áður. Hjúkrunarfræðingar geta leyst úr svo mörgum þeirra mála sem fólk leitar til læknis með, meðal annars sem varða eftirfylgni vegna krónískra vandamála. En læknirinn er alltaf nálægt, því hann starfar á sama stað í húsinu,“ segir Ófeigur Tryggvi og lýsir fleiri nýjungum.

„Við höfum líka greint sjúklingahópinn, hversu margir eru með sykursýki, háan blóðþrýsting, þunglyndi og kvíða, hvað margir þurfi ung-og smábarnavernd og hver aldurssamsetning sjúklingahóps hvers teymis er. Þannig getum við miðað þjónustuna betur við stóru viðfangsefnin og búið til frið fyrir hvert teymi til að sinna sínum hópi.

Hingað til hefur hver læknir verið skráður fyrir stórum hópi skjólstæðinga og oft hefur orðið alltof löng bið að honum. Hér var hún hátt í mánuður á tímabili. Okkur hefur tekist að snúa þeirri þróun við og erum komin niður í sex daga, samkvæmt nýlegri könnun.“

Ófeigur Tryggvi kom að heilsugæslustöðinni í Grafarvogi 1. október á síðasta ári og nýju læknarnir koma víða að, meðal annars frá Nýja-Sjálandi og Svíþjóð. Nýja vinnumódelið er erlent að uppruna og áhrifaríkt.

„Ég hef kannski talað mikið um þetta módel en framkvæmdin er starfsfólksins, og svo náttúrlega með stuðningi forstjóra heilsugæslunnar. Við höfum afrekað heilmikið en erum í miðri ánni. Við höfum hætt að vinna hvert í sínu horni en tekið höndum saman til að byggja upp aðgengilega og öfluga þjónustu, ekki síst við þá sem hafa langvinna sjúkdóma sem hrjá Íslendinga.“

Heilsugæslustöðin í Grafarvogi er rekin af ríkinu. Ófeigur Tryggvi segir það ekki hafa neikvæð áhrif á nýja fyrirkomulagið.

„Það er auðvitað töluverð viðhorfsbreyting fyrir lækna innan heilsugæslunnar að fara allt í einu að deila verkefnum sem þeir hafa einir sinnt í áraraðir og afhenda þau öðrum. En þetta er nýsköpun sem við sameinumst um. Við höfum leitað jafnvægis og þó enn sé eftir að slípa eitt og annað held ég að enginn vilji fara til baka.

Fyrirkomulag teymisvinnunnar er nýjung í opinberu heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi hafa læknar og hjúkrunarfræðingar unnið saman í fullu trausti og deilt verkefnum.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.