Innlent

Börn ein í barnavagni kannski barn síns tíma

Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Samfélag „Þetta hefur verið hluti af okkar menningu. Okkur finnst Ísland alltaf vera svo öruggt en hvort það sé að breytast að þessu leyti má alveg skoða,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, um þá staðreynd að margir foreldrar á Íslandi láti börn sín sofa úti í vögnum, ýmist úti í garði eða fyrir utan kaffihús eða verslanir. „Við höfum búið í öruggu samfélagi almennt og höfum notið góðs af því. Auðvitað vill maður samt ekki að eitthvað þurfi að koma upp á til þess að fara skoða þetta,“ segir Margrét. Á dögunum birtust fréttir á erlendum miðlum þar sem umfjöllunarefnið var barnavagn sem skilinn var eftir fyrir utan Laundromat Café við Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur en í honum svaf lítill drengur. Tilefni fréttanna var mynd sem þáttastjórnandinn Jessica Rowe birti á samfélagsmiðlum og skrifar hún við myndina að henni hafi brugðið við að sjá að í Reykjavík skilji foreldrar börn eftir fyrir utan kaffihús. „Mér fannst frekar óþægilegt að lesa athugasemdir fólks við færsluna en það voru margir að hneykslast á því að ég skildi barnið eftir í vagninum,“ segir Hafrún Elísa Sigurðardóttir en hún er móðir drengsins sem svaf í vagninum á umræddri mynd. Hafrún bætir við að einnig hafi margir skrifað athugasemdir við myndina og útskýrt að þetta tíðkist hér á landi. „Mér brá auðvitað mjög mikið þegar ég sá að erlendir fjölmiðlar væru með myndir af barnavagni barnsins míns í umfjöllun um kæruleysi íslenskra foreldra. Ég er alin upp við þessa siði og hef ekki talið ástæðu til að taka barnið með mér inn þegar það sefur í vagninum. Að sjálfsögðu sit ég upp við rúðuna þar sem ég sé vagninn mjög vel,“ segir Hafrún. Margrét segir að það séu foreldrar sem beri ábyrgð á velferð og öryggi barna sinna en vonar að í langflestum tilvikum fylgist þeir með vögnum. „Við höfum ekki fengið neinar ábendingar um að barnavagnar séu skildir eftir án þess að fylgst sé með en þá gæti það verið barnaverndarmál.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×