Innlent

Stórmeistararnir Héðinn og Jóhann efstir og jafnir fyrir lokaumferðina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hjörvar Steinn og Héðinn börðust fram í síðustu umferð á Skákþingi Íslands í fyrra. Skák þeirra nú varð öllru styttri en þá.
Hjörvar Steinn og Héðinn börðust fram í síðustu umferð á Skákþingi Íslands í fyrra. Skák þeirra nú varð öllru styttri en þá. mynd/skak.is
Stórmeistarnir Jóhann Hjartarson og Héðinn Steingrímsson eru efstir og jafnir fyrir lokaumferð Skákþings Íslands. Þegar tíu umferðum er lokið hafa þeir félagar báðir 7 1/2 vinning.

Jóhann telfdi í dag við Örn Leó Jóhannsson, yngsta keppanda landsliðsflokksins í ár, og hafði hvítt. Snemma í skákinni vann hann peð og hafði eftir það frumkvæðið. Það lét hann aldrei af hendi en að endingu féll Örn Leó á tíma.

Héðinn Steingrímsson fékk heldur ódýran vinning í dag en andstæðingur hans, stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson, lét ekki sjá sig. Hjörvar var fyrir mótið stigahæstur þátttakenda, 2580 ELO stig, en hann hefur átt afleitu gengi að fagna og er með þrjá vinninga.

Guðmundur Gíslason, hér til hægri, náði sínum síðasta áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.mynd/skak.is
Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson var fyrir umferðina í dag með jafn marga vinninga og Jóhann og Héðinn en tapaði fyrir kollega sínum Guðmundi Kjartanssyni. Bragi hafði hvítt og var í eilitlu basli þegar hann lék herfilega af sér og var skyndilega hróki undir og með koltapaða stöðu. Hann gaf því eftir 31. leik. 

Jón Viktor Gunnarsson var í 4. sæti fyrir umferðina hálfum vinningi á eftir mönnunum þremur á toppnum. Hann gerði í dag jafntefli við Einar Hjalta Jensson. Bæði Jón Viktor og Bragi hafa 6 1/2 vinning og eygja möguleika á að jafna Héðinn og Jóhann. Til þess verða þeir að vinna sínar skákir og stórmeistarnir að tapa sínum. Verði tveir efstir og jafnir verður háð einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Þá er vert að nefna að í umferðinni í gær náði Guðmundur Gíslason sínum þriðja og síðasta áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Hann þar nú aðeins að hífa sig yfir 2400 ELO stiga múrinn til að hljóta útnefninguna alþjóðlegur meistari. Guðmundur náði áfanganum með því að gera jafntefli við Jóhann Hjartarson í gær. Vestfirðingurinn byrjaði mótið skelfilega, tapaði fyrstu þremur skákunum, en tapaði síðan ekki skák í næstu sex umferðum. Í kvöld tapaði hann hins vegar fyrir Birni Þorfinnssyni eftir að hafa ofmetið sóknartækifæri sín.

Lokaumferðin fer fram á morgun og hefst klukkan 13 í húsakynnum Tónlistarskóla Seltjarnarness. Mennirnir í fjórum efstu sætunum hafa allir svart. Jóhann teflir við stigalægsta mann mótsins, nafna sinn Ingvason, á meðan Héðinn mætir Einari Hjalta. Bragi teflir við Örn Leó og Jón Viktor við Guðmund Kjartansson. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×