Innlent

Jóhann Hjartarson leiðir Skákþingið eftir ótrúlegar sviptingar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Skákþingið fer fram í Tónlistarskóla Seltjarnarness.
Skákþingið fer fram í Tónlistarskóla Seltjarnarness. mynd/skák.is
Stórmeistarinn Jóhann Hjartarson er einn efstur þegar átta umferðum af Skákþingi Íslands er lokið. Þrír anda ofan í hálsmál Jóhanns í jafnasta Skákþingi í manna minnum.

Í kvöld lagði Jóhann alþjóðlega meistarann Einar Hjalta Jensson í mikilli sviptingaskák. Um 180 ELO stigum munar á köppunum og hallar þar talsvert á Einar. Hann stóð mun betur eftir byrjunina og virtist ætla að innbyrða sigur örugglega.

Eftir rúma fimmtíu leiki lagði Jóhann gildru fyrir andstæðing sinn sem var síðasta hálmstráið og Einar beit á agnið. Skyndilega var það stórmeistarinn sem var með vinningsstöðu og lét hann hana ekki af hendi.



Staðan í skák Jóhann og Einars eftir 52. Hc5. Einar Hjalti tók hrókinn og tapaði skákinni eftir 53. Hxg6 Kxg6 54. Dxh5+. Með réttri vörn hefði mátt halda jöfnu (samkvæmt tölvunum). Leikurinn 52. - Ha7 hefði hins vegar þýtt endalok hvíts.
Í öðru til fjórða sæti er stórmeistarinn, og núverandi Íslandsmeistari, Héðinn Steingrímsson auk alþjóðlegu meistaranna Jóns Viktors Gunnarssonar og Braga Þorfinnssonar. Þeir tveir fyrrnefndu áttust við í kvöld og skyldu jafnir. Héðinn stóð um stund betur en lék af sér. 

Vestfirðingurinn fer hamförum


Fyrir umferðina voru þeir fjórir, Jóhann, Jón Viktor, Bragi og Héðinn, efstir og jafnir með fimm vinninga hver. Bragi gerði jafntefli í dag við stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson. Hjörvar var fyrir mótið sigurstranglegur enda stigahæstur keppenda. Hann hefur hins vegar átt afleitt mót og er sem stendur með 2 1/2 vinning í tíunda sæti af tólf. 

Þá er rétt að minnast á vaska framgöngu Vestfirðingsins Guðmundar Gíslasonar. FIDE-meistarinn byrjaði illa og tapaði fyrstu þremur skákunum. Síðan þá hefur hann unnið tvo stigahæstu keppendurnar, áðurnefnda Héðinn og Hjörvar, auk alþjóðlegu meistarana Guðmund Kjartanson og Einar Hjalta Jensson. 

Guðmundur, sem var tíundi stigahæsti keppandinn fyrir mót og nokkuð langt í næstu menn, gerði í kvöld jafntefli við Örn Leó Jóhannsson og er í 5.-6. sæti ásamt blaðamanninum Birni Þorfinnssyni með 4 1/2 vinning. 

Mótið fer fram í húsi Tónlistarskóla Seltjarnarness. Níunda og þriðja síðasta umferð hefst á morgun klukkan 15. Hægt er að mæta á staðinn og fylgjast með en að auki er hægt að horfa á beinar útsendingar í gegnum chess24.com.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×